Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 174
172
GUNNARJÓHANNESÁRNASON
ANDVARI
hverju sem gefur því gildi; það hefur eitthvað til að stefna að, markmið.
Og ef markmiðið er svo mikilvægt að án þess myndi líf hans glata gildi
sínu, ef það er jafn mikilvægt lífinu sjálfu, og nógu mikilvægt til að hætta
lífinu fyrir, þá má með sanni segja að það sé markmið lífsins og það gefi líf-
inu tilgang að nálgast það.
Með því að gera eitthvað að markmiði lífs síns þá er hann að þjóna þessu
markmiði. Þjónusta krefst sjálfsafneitunar, það er ekki hægt að leyfa sér
hvað sem er, það verður að færa einhverjar/órm'r til að ná markmiðinu. Sá
sem temur sér sjálfsafneitun og færir fórnir til að ná settu marki, verður að
gera greinarmun á því sem færir hann nær takmarkinu og því sem hindrar
hann, sem þýðir að gera greinarmun góðs og ills. Ef hann trúir því í raun
að markmiðið gefi lífi sínu gildi þá hlýtur hann einnig að trúa því að það
gefi lífi annarra gildi. Það verður lögmál, ekki aðeins hans eigið einkalög-
mál, heldur lífsins. Með því að koma fram við allt lifandi og dautt á sama
hátt, staðfestir hann þá sannfæringu sína að hann stjórnist ekki af eigin
duttlungum og hagsmunum, heldur því sem er rétt og gott; eitt skal yfir
alla ganga.
Sagan skýrir samband Benedikts við förunauta sína á þessa leið: „Einn
góðan veðurdag verður ekki hjá því komist að taka ákvörðun: kúlu í þenn-
an, kníf í hinn. Það er gjaldið. í því er ábyrgðin fólgin. Skyldan til að taka
sér vald ekki aðeins yfir lífi þeirra, en einnig dauða, eftir því sem vit og
samviska býður.“ (bls. 41) Þannig höfðu eftirlegukindurnar einnig orðið
ábyrgðarhluti Benedikts, það valt á honum hvort þær lifðu eða dæju, og
hann gat ekki látið sem ekkert væri, „einnig þetta voru lífverur, skepnur
gæddar holdi og blóði“. (bls. 9)
Við þurfum ekki að velkjast í vafa um hvert markmiðið er, ef við göng-
um út frá hinum kristilega umbúnaði sögunnar, aðventunni og jólahátíð-
inni. Líf sem lifað er eftir fordæmi Krists gefur fyrirheit um náð, réttláta
umbun og eilífa himnavist í félagsskap við Drottin allsherjar: „Því hvað var
líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin
þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbún-
ingi - þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“ Hér má bæta við: þjónusta
við Guðs vilja og undirbúningur undir eilíft líf. Aðventuförin væri þá hetju-
dáð til að sanna að Benedikt sé verðugur guðlegrar náðar.
IV
Samt sem áður held ég að ekki sé allt komið fram. Það er ýmislegt sem gef-
ur tilefni til að ætla að við þurfum að endurskoða þessa túlkun. Áður en
Benedikt leggur upp í ferð sína gefur hann sér ekki tíma til að fara til