Prestafélagsritið - 01.01.1922, Síða 36
32
S. P. Sívertsen:
Prestafélagsritið.
Jesús þekti ekki vonleysið, sem telur alt ómögulegt, sem
ekki væntir neins árangurs af starfinu í þjónustu Guðs og
ríkis hans.
Jesús var bjartsýnn á hið góða í manneðlinu, jafnframt því
að hann hafði opin augun fyrir syndum manna og ófullkom-
leika. Hann kom ekki með neinn vonleysisboðskap og vakti
ekki örvæntingu í brjósti neins iðrandi syndara. Hann sá glögt
það sem að var, en var bjartsýnn á möguleikana til að bæta
úr því.
Ovíða kemur þetta betur fram en í lýsingunni í 9. kap.
Matteusarguðspjalls. Þar er sagt frá því, að ]esús hafi ferðast
um, prédikað og læknað. »En er hann sá mannfjöldann, kendi
hann í brjósti um þá, því að þeir voru hrjáðir og tvístraðir,
eins og sauðir, er engan hirði hafa«. Þrátt fyrir þetta
sorglega ástand mannfjöldans sagði Jesús við lærisveina sína:
»Uppskeran er mikil, en verkamennirnir fáir; biðjið því herra
uppskerunnar, að hann sendi verkamenn til uppskeru sinnar«.
Eða ummælin í 4. kap. Jóhannesarguðspjalls. ]esús er í
þorpi í Samaríu. Um íbúana notar ]esús líkingu um uppskeru:
,»Sjá, eg segi yður: hefjið upp augu yðaf og lítið á akrana,
þeir eru þegar hvítir til uppskeru«. Hvílík bjartsýni.
Sama bjartsýnin kemur fram í líkingardæmisögum ]esú, er
lýsa vexti guðsríkis, hvernig það vaxi frá lítilli byrjun, vaxi af
sjálfu sér, vaxi eins og mustarðskornið og verði að stóru tré.
Með dæmisögunni um súrdeigið lýsir hann vexti guðsríkis inn
á við, krafti þess til að gagnsýra mannlífið.
Bjartsýni kristindómsins felst þessu samkvæmt ekki í því,
að gera menn einsýna á jarðlífið með mæðu þess og sorg
og vonbrigðum, með synd þess- og spillingu; ekki í því,
að fá menn til að flýja hið illa í heiminum, óþægindi lífsins
og erfiðleika, eða láta eins og böl lífsins og synd væri ekki
til. — Nei. Bjartsýni kristindómsins er í því fólgin, að fá
mennina til að líta upp, upp yfir böl lífsins, út yfir augna-
blikið, á takmark mannsins, á það, sem getur orðið, fremur
en á það, sem er.