Prestafélagsritið - 01.01.1922, Qupperneq 59
Prestafélagsritið.
Pálsbréfin.
55
ræða né ljóðstafasetningu, heldur samsvarandi setningar, ýmist
samhljóða eða andstæðar. — En þó má minnast hér á
alþektasta dæmið um skáldskap Páls, sem sé 13. kapítulann í
1. Korintubréfinu. Hann er lofsöngur til kærleikans, sem er
æðri en allar aðrar andagáfur, og jafnvel mestur hinna þriggja
höfuðdygða, sem óforgengilegar eru, trúar, vonar og kærleika.
Þessi »sálmur« er með því háfleygasta og fegursta, sem ort
hefir verið í kristninni fyrr og síðar. Hann er jafn ágætur að
háfleygi, innileika og lífsvísdómi. Eg vil tilfæra hann hér, þótt
margir kannist við hann:
Þótt eg talaði tungum manna og engla,
en hefði ekki kærleika,
yrði eg hljómandi málmur eða hvellandi bjalia.
Og þótt eg hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekkingu,
og þótt eg hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað,
en hefði ekki kærleika,
væri eg ekki neitt.
Og þótt eg deildi út öllum eigum mínum,
og þótt eg framseldi líkama minn, til þess að eg yrði brendur,
en hefði ekki kærleika,
væri eg engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður; kærleikurinn öfundar ekki;
kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp;
hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin;
hann reiðist ekki, tilreiknar ekki hið illa;
hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum;
hann breiðir yfir alt, trúir öllu, vonar alt, umber alt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr giidi,
en hvort sem það nú eru spádómsgáfur, þá munu þær líða undir lok,
eða tungur, þær munu hætta,
eða þekking, þá mun hún líða undir lok.
Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum;
en þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.
Þegar eg var barn, talaði eg eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn;
Þegar eg var orðinn fulltíða maður, lagði eg niður barnaskapinn.