Prestafélagsritið - 01.01.1922, Blaðsíða 60
56
Magnús Jónsson:
Prestafélagsritið.
Því að nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í óljósri mynd,
en þá augliti ti! auglitis.
Nú er þekking mín í molum,
en þá mun eg gjörþekkja, eins og eg er sjálfur gjörþektur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrent,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
Það sést af bréfum Páls, bæði 1. Korintubréfi og Kólossu-
bréfinu, að kristnir menn hafa frá upphafi haft sálma um
hönd á safnaðarsamkomum, og meðal þeirra hafa vafalaust
einnig verið frumortir sálmar. Þar sem andinn ólgar eins og
þar var, hlýtur hann að brjótast út í ljóðum og lofsöngvum.
Og eitt af þessum frumkristilegu skáldum var Páll, og án efa
fremstur þeirra allra. Hann segir sjálfur að hann hafi anda-
gáfur í ríkum mæli, að hann tali tungum öllum öðrum meira,
og það má eiga alveg víst, að svo hefir verið á þessu sviði
ekki síður. Sálmurinn um kærleikann er víst hvorki fyrsta né
eina skáldskapartilraun höfundarins, hann er ekki líkur því
að vera viðvaningssmíð.
Það er því alveg óhætt að lesa bréf Páls og lesa þau
vandlega upp á það, að þau eru ekki tóm fyrir þann, sem
kann að lesa, heldur bjóða þau margt og margvíslegt. En
hversu merkileg sem þau eru sjálf, þá er þó annað enn
merkilegra við þau, og það er, hve vel þau endurspegla
persónuna, sem bak við þau stendur. Allra skemtilegast er að
lesa bréf Páls í þeim tilgangi að kynnast Páli sjálfum. Hann
ritar þessi bréf, og hefir á þann hátt með réttu orðið einn
af frægustu rithöfundum, því að þau eru snildarverk. En hann
var rithöfundur svo að segja óvart, og hann er sjálfur meiri
en bréfin hans, og er alls ekki hægt að segja það um alla,
sem frægir hafa orðið af ritverkum sínum. — Starf hans var
stórt og árangurinn mikill, en hann var þó stærri sjálfur en
verk hans. Hann sjálfur, eins og hann verður undir áhrifum
anda Krists, er dásamlegasta fyrirbrigðið, en hitt alt, bréf
hans, verk hans og trúboð, er eins og ávextir, sem hljóta að
þroskast og falla af þessum lífskröftuga meið. Lesum bréf