Eimreiðin - 01.01.1927, Side 50
30 HÚN VAR SVO RÍK, HÚN LAUFEY eimREIÐIN
— Þarna getur þú setið, sagði hún og benti á stól, sem
stóð öðrum megin við borðið. — Svo sit ég á rúminu.
Halldór fór inn og skygndist um eins og hann ætti von a
einhverju varhugaverðu. Svo settist hann á stólinn og lagði
hendurnar fram á borðið.
Laufey lokaði dyrunum og fetaði síðan á tánum inn gólfið-
Hún settist á móti Halldóri og fitlaði við bænakverið, sem
lá á borðinu. Við og við fóru hendurnar eins og ósjálfrátt út
fyrir spjöldin á kverinu og nálguðust hendur Halldórs. Svo
snart hún þær eitt augnablik og leit um leið á hann. Hann
kiptist við, mjakaði sér til á stólnum og skotraði augunum til
dyranna. Hún fölnaði og krepti hendurnar um kverið. Svo
sagði hún barnslega þýtt og biðjandi:
-- Ertu reiður við mig, Halldór? Viltu ekki segja mér frá
eins og í sumar? Og ég sem hef verið að býsnast yfir-
hvernig þú getir þetta alt saman?
Halldór hafði horft fram á gólfið, en nú skaut hann horn-
auga til Laufeyjar. Svo vottaði fyrir brosi í öðru munnvikinu,
og eins og ósjálfrátt þreifaði hann á brjóstinu vinsta megin.
Laufey fylgdi með augunum svipbrigðum hans og hreyf-
ingum. Hún reyndi að vera róleg, en eftirvæntingin, blandin
barnslegri aðdáun, skein út úr hverjum drætti í andlitinu.
— Að hugsa sér alla þá peninga . . . fyrir jörðinni, hús-
unum, fénu, hestunum og kúnum!
Halldór rétti úr sér — og nú var brosið breitt og ánægju-
legt.
— O, það á nú svo sem margur meira.
Augu Laufeyjar ljómuðu af von og gleði, og roði kom í
kinnarnar.
— Viltu nú ekki lo-o-fa mér að sjá bókina?
Halldór þreifaði á brjóstinu, stakk svo hendinni lítið eitt
hikandi inn á milli hnappanna á skyrtunni og dró upp bók-
ina. Hann skoðaði hana í krók og kring, strauk trosnuð
hornin á spjöldunum og lagði hana síðan fyrir framan sig.
— Ojá, það á nú svo sem margur meira . . . En þetta er
nóg fyrir mig! Hann sagði þetta lágt og stillilega, en drýg-
indin í röddinni leyndu sér ekki. Hann strauk bókina flötum
lófa og ýtti henni síðan yfir borðið.