Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Qupperneq 37
GRETAR L. MARINÓSSON OG AUÐUR B. KRISTINSDÓTTIR
byggjast upphaflega á svonefndu læknisfræðilegu líkani, þar sem gert er ráð fyrir að
þroskahömlun sé frávik frá hinu eðlilega eða algenga og að orsökin búi með einstak-
lingnum í formi líffræðilegrar skerðingar (Bailey, 1998). Niðurstöður greininga sem
byggja á læknisfræðilega líkaninu gefa upplýsingar um eðli skerðingarinnar og af-
leiðingar en takmarkaðar vísbendingar um hvað til bragðs skuli taka í skólastarfi.
Önnur nálgun er hið félagslega líkan sem telur að orsakir fötlunar sé að finna í
hindrunum sem hinn ófatlaði meirihluti samfélagsins setur fólki með fötlun (Barnes,
Mercer og Shakespeare, 1999). Því er haldið fram að slíkar hindranir, sem tengjast t.d.
aðgengisvanda og fordómum, geti skapað útilokun og undirokun þess fólks sem
talið er búa við andlega eða líkamlega skerðingu. Fötlunin leiði þannig til félagslegs
misréttis, sambærilegs við kynjamisrétti og kynþáttamisrétti (Rannveig Traustadótt-
ir, 2003, bls. 29-30). Önnur útgáfa félagslega líkansins er að fötlun sé félagsleg hug-
smíð sem þurfi að skilgreinast og skiljast í sögulegu og samfélagslegu samhengi eins
og önnur félagsleg fyrirbæri (Dóra S. Bjarnason, 2003, bls. 36-37; Gretar L. Marinós-
son, 2002, bls. 17). Það leiðir af félagslega líkaninu að gera ber ráð fyrir fjölbreyttum
nemendahópi í hverjum skóla þar sem fötlun einstaklinga er talin hluti þessa fjöl-
breytileika og akkur fyrir skólann fremur en vandi. Jafnframt skuli skólinn laga sig
að þörfum einstaklinga með þroskahömlun á sama hátt og þeir laga sig að honum;
þannig þurfi að leitast við að tryggja að nemendur með fötlun geti tekið virkan þátt
í skólastarfinu á sama hátt og ófatlaðir nemendur. Nýrri útgáfa fötlunarlíkans
Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, International Classification of Functioning,
Disability and Health, sem sprottið er upp úr skoðun á heilbrigði fremur en sjúkdóm-
um, gerir ráð fyrir að taka beri aukið tillit til félagslegs samhengis og þátttöku ein-
staklingsins í samfélaginu (the biopsychosocial model; World Health Organization,
2002). Von er því til þess að brátt muni fundin leið til að taka tillit til einstaklingsins,
samfélagsins og samspils þeirra í milli í einu líkani um fötlun.
Það er nokkrum erfiðleikum bundið að átta sig á fjölda nemenda með þroskahöml-
un á landinu. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins heldur skrá yfir þá sem stofnunin
hefur greint með skírskotun til alþjóðlegra flokkunarkerfa. Tryggingastofnun ríkisins
heldur skrá yfir fjölskyldur og einstaklinga sem fá umönnunarbætur vegna barna
með fötlun. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga útdeilir fé til einstakra sveitarfélaga vegna
kennslu fatlaðra barna í grunnskóla (Reglugerð um jöfnunarframlög, 2002). Kanna
þarf hvort þessar stofnanir afmarki hópinn „nemendur með þroskahömlun" á sama
hátt eða ekki og hvaða afleiðingar það hafi fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra.
Leikskólar og grunnskólar skilgreina fatlaða nemendur með tilliti til þess stuðn-
ings sem þeir þurfa í skóla. Þar er hópur nemenda með þroskahömlun ekki skil-
greindur sérstaklega. Algengt er að þroskahömlun fylgi viðbótarraskanir svo sem
frávik í hreyfigetu, málþroskavandamál og frávik í hegðun og samskiptum sem
flækja myndina. Oftast er því erfitt að staðfesta með einhverri vissu að um þroska-
hömlun sé að ræða fyrr en barnið hefur náð fjögurra ára aldri (Tryggvi Sigurðsson,
2000). í sumum tilvikum hefur því ekki verið komist að niðurstöðu um hvort börn á
leikskólaaldri tilheyra þessum hópi eða ekki.
Þeir sem hyggjast rannsaka menntun nemenda með þroskahömlun standa því
frammi fyrir fræðilegri jafnt sem praktískri óvissu um afmörkun hópsins. Þess vegna
35