Hlín - 01.01.1949, Blaðsíða 50
48
Hlín
sínum hluta. Og þess þarfnast framtíðin, þess krefst
„Frelsið" af öllum landsins börnum, ef vernda skal fjör-
eggið dýrmæta á öllum ókomnum tímum.
Ljóðræna og söngelska æskan, sem Steingrímur hreif,
er nú að verða aldin að árum. En ljóslega sannast á
Þuríði á Sigurðarstöðum vísan hans kunna:
„Elli, þú ert ekki þung
anda Guði kærum.
Fögur sál er ávalt ung
undir silfurhærum.“
4. mars 1947.
Jónas Baldursson, Lundarbrekku.
Guðrún Filippusdóttir
Bjóluhjáleigu.
Okkur, sem erum að verða gráhærð og gömul, og höf-
um fylgst með hinurn miklu breytingum, sem hafa orðið
á flestum sviðum þjóðlífsins, verður oft hugsað til
bernskuáranna og þess fólks, sem þá lifði og starfaði og
hjelt uppi heiðri og sóma landsins.
„Hlín“ er svo elskulega hugulsöm og þjóðrækin, að
vilja viða að sjer og geyma frá glötun sögum af hinum
myndarlegu og manndómsmiklu húsfreyjum, bæði þeim,
sem enn lifa, og þeim, sem eru horfnar af vígvelli lífsins,
þar sem þær stóðu sem hetjur í stríði erfiðleikanna, marg-
ar við lítil efni og þröngan kost, en auðugar af fórnfýsi
og kærleika. Hver verðskuldar líka fremur virðingu og
þökk en sönn móðir, eins og Matthías segir:
„Því hvað er ástar og hróðrar dís, •
og livað er engill úr Paradís
hjá góðri og göfugri móður?“
Jeg vil nota mjer þennan velvilja „Hlínar“ og segja fá
orð frá einni merkis- og myndarkonu, Guðrúnu Filippus-