Tímarit Máls og menningar - 01.06.1965, Blaðsíða 19
íslenzk vísindastarjsemi
girnilegar til fróðleiks, en ég hafði ekki lengi dvalizt í Bandaríkjunum þegar
kjamorkusprengjan var sprengd yfir Hírósíma og öllum varð ljóst hvað verið
hafði að gerast í Bandaríkjunum á kjarnorkusviðinu meðan á styrjöldinni
stóð. Þetta kom mér í vanda. Ég þóttist sjá að afstaðan til eðlisfræðirann-
sókna myndi taka stakkaskiptum og þörfin fyrir eðlisfræðinga stóraukast.
Ég fór því að efast um að það væri skynsamlegt af mér að leggja kjarneðlis-
fræðina á hilluna, en hún hafði verið mín aðalgrein. Hinsvegar þótti mér
leitt að bregðast því trausti sem mér hafði verið sýnt með styrkveitingunni.
Það varð úr að ég afsalaði mér styrknum og fluttist frá Rockefellerstofnun-
inni í Princeton að Princetonháskóla, en þar vann ég að eðlisfræðirannsókn-
um hátt á annað ár með styrk frá Rannsóknaráði.
Og getur þú sagt mér eitthvað frá störfum þínum í Bandaríkjunum? Hversu
mikilvœgar rannsóknir þú fékkst við?
Við Princetonháskólann vann ég að geimgeislarannsóknum. Það var um að
ræða mælingar á aldri vissra geimgeislaagna, svokallaðra mesóna, þegar þær
stöðvast í mismunandi efnum. Álitið var að agnir þessar stæðu í nánu sam-
bandi við kjarnakraftana, sem halda saman ögnum atómkjarnans, en hegðun
þeirra í léttum efnuin reyndist í engu samræmi við kenninguna. Skömmu síðar
fannst svo önnur ögn, pí-mesónan, sem reyndist hafa til að bera flesta þá
eiginleika sem kenningin um kjarnamesónuna hafði gert ráð fyrir, en sú
kenning var upphaflega sett fram af japönskum eðlisfræðingi árið 1935, áður
en nokkur mesóna hafði fundizt.
Hvað starfaðir þú hér fyrstu árin, eftir að þú komst heim aftur?
Þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum haustið 1947 fór ég að kenna við
Menntaskólann í Reykjavík og sama haust tók ég við kennslu við háskólann,
eftir Steinþór Sigurðsson sem lézt af slysförum í Heklugosinu. Fyrstu árin
vann ég aðallega við kennslu, þangað til ég var ráðinn framkvæmdastjóri
Rannsóknaráðs ríkisins árið 1949.
Voru ekki starfsskilyrðin hin ákjósanlegustu í Bandaríkjunum og mundir
þú ekki hafa unnið vísindunum meira gagn en hér heima og sjálfum þér
frœgð og frama? Hversvegna komstu heim frá Bandaríkjunum?
Jú, starfsskilyrðin voru ágæt og ég hefði vissulega getað haldið áfram rann-
sóknarstörfum í Bandaríkjunum. Um frægð og framavonir verður engu spáð,
en ef eingöngu er miðað við þróun alþj óðavísinda hefði ég eflaust átt að
starfa áfram í Bandaríkjunum.
9