Tímarit Máls og menningar - 01.06.1965, Blaðsíða 67
Svava Jakobsdóttir
Synir mínir
Þeir fæddust samtímis og við vissum ekki hvor var frumburðurinn. Fótur
annars kom í Ijós um leið og höfuð hins. Skrifað stendur: Þú skalt helga
Drottni alla frumburði, hvað eina, sem opnar móðurlíf. Hvor sona minna
skyldi helgaður Drottni? Hvor þeirra átti frumburðarréttinn? Hvor var
kraftur föður síns og frumgróði styrkleika hans? Átti að meta höfuð hærra
en fót, sem var þar að auki visinn, brotinn við fæðingu og óx vart eftir það?
Við vissum það ekki.
Sögur greindu ekki frá tvíburum, sem fæddust samtímis, þar sem fótur ann-
ars kramdist við höfuð hins. Við leituðum til presta og spámanna og allra
þeirra, er þekktu Guð, og við spurðum þá: „Hvor á frumburðarréttinn?
Hvorum ber blessunin?“ Lögmálið veitti engin svör og lærðum mönnum bar
ekki saman. Þeir sögðu okkur að bíða átekta, því að Guð mundi opinbera
vilja sinn, þegar stundin væri komin.
Og við biðum. Ég ákallaði Guð á hverjum degi. Ég titraði af ótta hverja
páskanótt, er hinn útvaldi lýður neytti lambsins í skjóli Guðs, því að blóði
var ekki roðið á dyrastafi mína og dyratré húss míns var grátt eins og eyði-
mörkin. Hús mitt var óhreint. Prestarnir forðuðust mig og eiginmaður minn
hafði ekki lengur mætur á mér. Bölvun hvíldi yfir mér og sonum mínum.
Og ég hrópaði til Guðs um miskunn: „Sé það svona, hví lifi ég þá?“ En Guð
opinberaði ekki vilja sinn. Við vorum útskúfuð.
Þá vildi ég sjálf taka ákvörðun. Ég virti fyrir mér báða syni mína. Ég
hafði borið þá undir belti og saman höfðu þeir hnytlazt í kviði mínum, þar
til þeir opnuðu líf mitt, annar með höfðinu, hinn með fætinum. Annar var
heilbrigður. Hinn var með visinn fót. Sjálf ætlaði ég að meta gildi þeirra
og síðan ætlaði ég að fara til eiginmanns míns og blekkja hann og segja við
hann: „Húsbóndi minn, Drottinn hefur opinberað vilja sinn.“
Og þegar ég leit á son minn, sem heilbrigður var, fylltist ég stolti og ég
hugsaði: „Sannarlega er hann kraftur föður síns og frumgróði styrkleika
hans. Hann er réttborinn til blessunar.“ Mig langaði til að hampa honum
framan í heiminn og segja: „Sjá, þetta gef ég yður.“ í hjarta mínu vissi ég,
57