Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 75
Ferðaleikur
lífsreyndur og þóttist vita allt það um konur sem karlmaður getur
vitað um þær. Það sem honum féll best í geð við ungu stúlkuna sem
sat við hlið hans var einmitt það sem honum hafði reynst hvað
erfiðast að finna: hreinleikinn.
Vísirinn á bensínmælinum var alveg kominn niður í núll þegar
hann tók eftir skilti í hægri vegarkantinum sem sýndi að fimmtíu
metrar væru til næstu bensínstöðvar. Tæpast hafði hún látið í ljós
létti sinn þegar hann setti vinstra stefnuljósið á og beygði upp á
planið fyrir framan bensíndælurnar. En afar stór tankbifreið stóð
fyrir framan dælurnar og verið var að fylla á þær með gríðarstórri
slöngu. „Þar vorum við óheppin," sagði hann og steig út úr
bifreiðinni. „Verðið þið lengi að þessu?“ kallaði hann til afgreiðslu-
mannsins. „Augnablik." „Augnablik, maður hefur nú heyrt það
áður.“ Hann ætlaði að setjast upp í bifreiðina aftur en tók eftir því
að unga konan var stigin út um dyrnar hinum megin. „Afsakaðu,“
sagði hún. „Hvert ert þú að fara?“ spurði hann gagngert til að hún
færi hjá sér. Jafnvel þótt þau væru búin að þekkjast í rúmt ár kom
ennþá fyrir að hún roðnaði fyrir framan hann og honum voru þessi
augnablik blygðunar einkar kær (vegna þess að þau greindu hana
frá þeim konum sem hann hafði þekkt fyrir hennar tíð og eins
sökum þess að hann þekkti lögmál hverfulleikans sem í hans augum
gerði jafnvel blygðun vinkonu hans dýrmæta).
2.
Unga stúlkan þoldi ekki að þurfa að biðja hann (en hann ók oft
klukkustundum saman) að nema staðar við trjálund. Það fór alltaf
jafn mikið í taugarnar á henni hvernig hann þóttist verða hissa og
spurði hversvegna. Hún vissi vel að blygðun hennar var fáránleg og
gamaldags. Hún hafði oft tekið eftir því að fólk gerði grín að henni
í vinnunni og stríddi henni á spéhræðslunni. Hún roðnaði alltaf við
tilhugsunina um að hún myndi roðna. Hún þráði oft að vera frjáls,
áhyggjulaus, láta sér líða vel í eigin líkama eins og hún vissi að
raunin var með flestar ungar konur sem hún þekkti. Hún hafði
meira að segja upphugsað, svona fyrir sig, óvenjulega leið til
sjálfsefjunar: hún endurtók með sjálfri sér að við fæðingu fengju
TMM XXII
337