Náttúrufræðingurinn - 2010, Blaðsíða 118
Náttúrufræðingurinn
118
Kynjahlutföll meðal anda eru oft ójöfn, þ.e. steggir eru fleiri í heildina en
kollur. Ennfremur er munur eftir breiddargráðum: á veturna er kynjahlut-
fall jafnast syðst á útbreiðslusvæðum, en hlutfall steggja eykst eftir því sem
norðar dregur. Tvær tilgátur hafa verið settar fram til að skýra þennan mun á
dreifingu kynjanna: (1) Steggir vilja verja vetrinum sem næst varpstöðvunum,
en kollur hrekjast sunnar á bóginn þar sem steggirnir eru ofar í virðingarstig-
anum; (2) Steggir þola betur svalara veðurfar og fara því skemmra suður á
bóginn. Samkvæmt báðum tilgátum ættu kynjahlutföll íslenskra andastofna
að vera ójöfn að vetri til, með steggi í talsverðum meirihluta. Stokkönd og
rauðhöfði hafa þó jafnari kynjahlutföll á Íslandi en sömu tegundir á svip-
uðum breiddargráðum annars staðar í Evrópu. Kynjahlutfall rauðhöfða hér
á landi er um það bil jafnt (1:1), en meðal stokkanda eru steggir 58% af stofn-
inum. Hlutfall stokkandarsteggja í Vestur-Evrópu eykst með hækkandi með-
alhita á hverjum stað. Kynjahlutfall æðarfugls er víðast hvar 55–60% blikar,
einnig á Íslandi. Kynjahlutföllin hérlendis eru svipuð allan ársins hring, sem
bendir til þess að kynin haldi saman yfir veturinn og dreifist ekki á mismun-
andi hlýja/suðlæga staði. E.t.v. skýrir fjarlægðin í næsta land hvers vegna
kynin halda saman, enda eru farleiðir stuttar innan Íslands. Endur sem
dvelja hér árið um kring hafa e.t.v. þróast skammt á veg í að verða sérhæfðar
að eyjalífi, en slík aðlögun þekkist meðal andategunda á úthafseyjum.
Náttúrufræðingurinn 79 (1–4), bls. 118–124, 2010
Ritrýnd grein
Kynjahlutföll rauðhöfða,
stokkandar og æðarfugls
á Íslandi
Inngangur
Skekkja í kynjahlutföllum fugla
Kynjahlutföll sumra fuglategunda
eru ójöfn, þ.e. annað kynið er algeng-
ara annaðhvort við klak eða meðal
fullorðinna fugla.1,2 Innan atferlis-
fræðinnar eru þekkt dæmi um stýr-
ingu foreldra á kynjahlutfalli, m.a.
í hrímtrosa (Diomedea exulans), þar
sem yngstu og elstu foreldrarnir
eignast fleiri kvenkyns unga en
foreldrar á miðjum aldri eignast
frekar karlkyns unga.3 Egg klekjast
í þeirri röð sem þeim er orpið og
svo virðist sem sumir kvenfuglar
geti notað það til að stjórna kynja-
hlutfalli unganna, t.d. hjá snjógæs-
um (Chen caerulescens). Þar sem
fjögur egg voru í hreiðri voru 62%
líkur á karlkyns fóstrum úr fyrstu
tveimur eggjunum en 72% líkur
á kvenfóstrum í þriðja og fjórða
eggi, en slíkt mynstur getur m.a.
skýrst af hraðari þroska karlfóstra
í eggjastokkum, áhrifum hita á
fósturþroska eða ójafnri dreifingu
litninga í eggin.4,5
Kynjahlutföll og félagskerfi
anda á Norðurhveli
Kynjahlutfall anda (Anatidae:
Anatini) á Norðurhveli er oftast
skekkt á þá leið að steggir eru fleiri en
kollur.6,7,8 Þó er kynjahlutfall anda
yfirleitt jafnt við klak8,9 og því skýr-
ist ójafnt kynjahlutfall anda af ólík-
um lífslíkum kynjanna, annaðhvort
sem unga, ungfugla eða á fullorð-
insaldri. Skekkja í kynjahlutföllum
er mismunandi eftir andategundum
Jón Einar Jónsson
1. mynd. Rauðhöfði (Anas penelope). Ljósm./Photo: Sigurjón Einarsson.
79 1-4#loka.indd 118 4/14/10 8:52:13 PM