Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 16
HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR
16
virkan þátt í þessum umræðum og eru í dag fyrst og fremst þekktir fyrir
ádeilumyndir sínar frá þessum árum og tímamótagreinina „Í átt að þriðju
kvikmyndinni“ þar sem þeir nálgast umræðuna á fræðilegan hátt og setja
fram hugmyndir um flokkun á kvikmyndaiðnaðinum.20 Samkvæmt kenn-
ingum þeirra má skipta kvikmyndum í þrjá flokka. Fyrsta flokkinn skipa
hefðbundnar Hollywood-myndir sem enda vel. Annan flokkinn skipa svo-
kallaðar leikstjóramyndir og þann þriðja myndirnar sem þeir sjálfir voru
að gera á þessum árum, kvikmyndir þar sem róttækur baráttuandi sjöunda
áratugarins undir áhrifum frá kúbversku byltingunni var áberandi. Þeir
lögðu áherslu á að:
Frásagnar- og áhrifamáttur kvikmyndarinnar og möguleikarnir
sem hún býður upp á til lifandi skrásetningar á nöktum veru-
leikanum, auk máttarins sem hún býr yfir til að upplýsa með
mynd og hljóði, gera hana að besta samskiptamiðlinum. Þess
gerist varla þörf að benda á að bestu kvikmyndirnar eru þær
sem ná að beita hinu myndræna formi skynsamlega og flétta
saman við það hæfilegum skammti hugmynda.21
Þeir, eins og svo margir aðrir róttækir menntamenn úr öllum stéttum
og af ólíkum uppruna, sóttu efnivið til áframhaldandi baráttu á hátíðirnar.
Rómanska Ameríka logaði öll í pólitískum átökum á þessum áratugum.
Landeigendur með heraflann að baki sér börðust fyrir óbreyttri þjóð-
félagsskipan á meðan frumbyggjar, vinstrisinnaðir menntamenn og vopn-
aðar sveitir skæruliða lögðu lífið að veði fyrir uppstokkun nýlendufyrir-
komulagsins.22 Fljótlega varð ljóst að kvikmyndagerðarmenn álfunnar
höfðu öflugan tjáningarmiðil að vopni; áhrifaríkan miðil sem var öðruvísi
og jafnvel framandi. Evrópumenn voru fyrstir til að gangast við þessu sér-
stæði og myndir frá Rómönsku Ameríku urðu eftirsóttar á kvikmyndahá-
tíðum víða um Evrópu. Fyrir heimamenn sýndu þær raunsanna mynd af
veruleika sem við blasti og af raunverulegum atburðum, en fyrir utanað-
komandi sýndu þær veruleika sem var framandi, ögrandi, dulúð legur og
jafnvel seiðandi. Myndin Minningar um vanþróun (Memorias de subdesar-
rollo, 1967), eftir Kúbverjann Gutiérrez Alea, segir sögu manns sem
20 Greinin birtist eins og áður sagði í íslenskri þýðingu höfundar í bókinni Áfangar í
kvikmyndafræðum 2003.
21 Solanas og Getino, „Í átt að þriðju kvikmyndinni“, bls. 291.
22 Um þetta sjá t.d. rit Sigurðar Hjartarsonar, Þættir úr sögu Rómönsku Ameríku,
Reykjavík: Mál og menning, 1976.