Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 27
27
styrkja staðlaðar ímyndir um Rómönsku Ameríku og íbúa hennar – ekki
hvað síst í ljósi þess að fyrirmyndin – þriðja kvikmyndin – krafðist þess að
veruleikinn væri borinn á borð eins og hann blasti við. Hugmyndir Solanas
og Getinos um þriðju kvikmyndina fólu í sér að hvorki mátti fegra né
sverta, hvorki ýkja né draga úr, heldur segja söguna eins og hún væri og frá
sjónar hóli alþýðunnar. Þeir lögðu áherslu á að kvikmyndagerðarmenn álf-
unnar bæru umfangsmikla ábyrgð og hún fæli í sér kvöð um réttsýni og
réttláta „meðferð“ umfjöllunarefna. Í takt við áherslur þeirra hafa sérfræð-
ingar víða um heim á undanförnum árum beint sjónum að viðfangsefnum
eins og ólíkum birtingarmyndum þjóðfélagshópa, kynja og kynþátta. Þeir
hafa ennfremur skoðað hvernig stjórnmálaátök, sögulegir viðburðir, trúar-
leg efni og átök um áhrif og völd birtast í þessum myndum, þar sem
ofbeldi er alla jafna allsráðandi. Við blasir að þau átök sem mótað hafa
sögu Rómönsku Ameríku allt frá tímum landvinninganna, og án efa miklu
lengur, er ráðandi stef og birtist í öllu mögulegu og ómögulegu samhengi.
Það er líkamlegt og andlegt, pólitískt og glæpsamlegt, og það er jöfnum
höndum opinbert og hluti af einkalífi íbúanna.
Myndin í speglinum
Við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar draga kvikmyndir Rómönsku
Ameríku upp ímynd þess veruleika sem blasir við kvikmyndagerðarmönn-
um samtímans. Kvikmyndaiðnaður álfunnar tekur virkan þátt í því að við-
halda og endurskapa veruleika þar sem átök og óréttlæti ríkja alltof víða.
Ég er þeirrar skoðunar að þær myndir sem hvað mesta athygli hafa vakið
geri það vegna þess að þær staðfesta fyrirliggjandi staðalmyndir – ekki síst
þær sem snúa að átökum, fátækt og samskiptum kynjanna. „Macho“-
maðurinn og hlýðna konan við hlið hans virðast eiga sér eilíft líf á hvíta
tjaldinu. Segja má að um raunsanna mynd af lífi karla og kvenna í mörgum
löndum Rómönsku Ameríku sé að ræða, en einföldunin afneitar um leið
veruleika margra. Ímynd átaka sem mótast af einföldun hins illa og góða
skilar sömu niðurstöðu.
Nýrri kynslóð kvikmyndagerðarmanna hefur þó tekist að falla ekki í þá
gryfju að gera sögupersónur sínar að fórnarlömbum óviðráðanlegra
aðstæðna, eins og gjarnt var í kvikmyndagerð sjötta og sjöunda áratugarins.
bók Deborah Shaw, Contemporary Cinema of Latin America: 10 Key Films, London:
Continuum, 2003.
SPEGLUN OG SPEGILMYNDIR