Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Síða 59
„ÞIÐ HLUSTIÐ ALDREI Á OKKUR“
59
1990) og Arturo Islas (1938–1991) sem skrifaði bókina The Rain God (Regn-
guðinn, 1991) þar sem sögusviðið er El Paso. „Minningabækur“ eru t.d.
Canícula: Snap shots of a Girlhood en la Frontera (Heitir dagar: Myndir af
æskuárum stúlku á landamærunum, 1995) eftir Normu Cantú (f. 1954) og
Capirotada: A Nogales Memoir (Naglasúpa: Endurminningar frá Nogales,
1999) eftir Alberto Ríos (f. 1952). Öll þessi verk rýna í veruleika landa-
mærabyggðanna norðan markanna.
Í þessu sambandi eru þó einkum tvö verk Chicanóa sem mætti kalla
landamærabækur í orðsins fyllstu merkingu þar sem mörkin sjálf eru í
aðalhlutverki. Þetta eru Peregrinos de Aztlán (Aztlán-pílagrímarnir, 1974)
eftir Miguel Méndez (f. 1930) og El diablo en Tejas (Djöfullinn í Texas,
1976) eftir Aristeo Brito (f. 1942) sem eru löngu orðin klassísk verk í bók-
menntum Mexíkóameríkana. Báðir skrifa þessir höfundar á spænsku eins
og flestir rithöfundar Chicanóa sem ruddu braut þeirra í Bandaríkjunum á
áttunda áratugnum.45 Peregrinos de Aztlán er í ætt við svokallaðar tungu-
málaskáldsögur (sp. novelas de lenguaje) þar sem ótal raddir undirmálsfólks
heyrast. Méndez fæddist og ólst upp sunnan markanna í smábæ í Sonora
en fluttist norður fyrir þau til Tucson ungur að árum. Hann þekkir vel til
beggja vegna markanna og nýtir sér munnlega hefð svæðisins. Hungrið og
neyðin keyrir persónurnar áfram í goðsagnakenndri pílagrímsför um
eyðimerkur landamærasvæðanna.
El diablo en Tejas fjallar um aðstæður sem íbúar við Ríó Bravo/Río
Grande bjuggu við eftir tilkomu landamæranna. Sögusviðið er Presidio,
afskekkt smáþorp við landamærafljótið milli Texas og Chihuahua. Nafnið
Presidio – fangelsi – lýsir ástandi þorpsins þar sem allt hefur nánast staðið
í stað frá því það var reist og má sjá það sem táknmynd fyrir stöðu Mexíkó-
ameríkana í Bandaríkjunum. Bókin tekur fyrir þrjú tímabil í Presidio:
1883, 1942 og 1970, og reynslu Mexíkana sem smám saman verða Mexí kó -
ameríkanar í „eigin landi“, landi sem í einni svipan varð bandarískt 1848.
Einnig koma við sögu samskipti fjölskyldna sem nú eru splundraðar og
mótstaðan sem Mexíkanar mæta þegar þeir fara yfir til gamla þorpsins. Í
gegnum árin höfðu íbúar Presidio og systurþorpsins, Ojinaga, ferðast á
bátum milli þorpanna, en eftir tilkomu landamæranna var reist brú. Í stað
þess að sameina verður hún tákngervingur sundrungar og valds. Og líf-
gefandi fljótið verður nú að tákni dauðans.
45 Almennt skrifa Chicanó-höfundar á ensku nú á dögum, en verk þeirra eru jafn-
óðum þýdd á spænsku fyrir hinn stóra spænskumælandi markað í Bandaríkjunum
og víðar.