Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 85
85
SOR JUANA SVARAR FYRIR SIG
Með yfirgripsmikilli þekkingu sinni sýnir hún fram á fordæmi þess að
konur hafi haft bæði völd og áhrif, líka innan guðfræðinnar og kirkjunnar.
Allar persónurnar sem koma fyrir í tilvitnuninni koma einnig fyrir í verki
Christine de Pizan, Bókin um kvennaborgina, og því skrifar Sor Juana sig
inn í þá þekkingarfræðilegu femínísku hefð sem Pizan hóf með því að
safna saman vitneskju um lærðar og mikilvægar konur.69 Víst er talið að
bók Giovannis Boccaccio (1313–1375) Af frægum konum hafi verið upp-
spretta sem báðar þessar skáldkonur nýttu sér. En eins og Carmen Peraita
bendir á þá passar Sor Juana að tengja konurnar ekki við þær dyggðir sem
konum voru ætlaðar. Hún minnist t.d. hvorki á siðferði þeirra, skírlífi né
undirgefni.70
Þótt Sor Juana hafi vissulega þjónað kirkjunni dyggilega, ekki síst með
trúarlegum skrifum af ýmsum toga og með því að vera glæsilegur fulltrúi
kirkjunnar sem yfirmenn hennar voru stoltir af, þá var hún af allt öðru
sauðahúsi en svokallaðar „helgar konur“. Fjöldi kvenna í Nýja heiminum
tilheyrði þessum hópi kvenna sem taldi sig vera í beinu sambandi við Guð
og dýrlingana, nokkurs konar jarðneskar málpípur æðri máttarvalda, og
voru sumar þeirra frægar fyrir dulspeki sína. Innan kaþólsku kirkjunnar í
Evrópu voru margar „helgar konur“ teknar í dýrlingatölu á miðöldum en
eftir siðaskipti fór að draga úr áhrifum þeirra.71 Í Mexíkó voru þessar
konur yfirleitt með lágmarksmenntun og takmarkaðist guðfræðikunnátta
þeirra oft við lestur dýrlingasagna. Segja má að þær hafi verið á valdi trú-
arinnar og yfirleitt var þeim stjórnað af skriftafeðrum eins og til dæmis
þeim sem knésetti Sor Juönu, biskupnum af Puebla, Manuel Fernández de
Santa Cruz. Þær voru látnar skrifa um hina dulrænu reynslu sína og þau
skrif notuðu skriftafeðurnir að eigin geðþótta. Þær voru því ekki nein
ógnun við kirkjuna og karlaveldi hennar heldur verkfæri í höndum kirkj-
unnar manna.72 Þessu var öfugt farið með Sor Juönu sem fór í klaustur til
að komast hjá hjónabandi en ekki af trúarlegri köllun eins og hún lýsir sjálf
í Svarinu.
69 Gerð er ítarleg grein fyrir þessum hugmyndum í bók Elizabeth Teresu Howe,
Education and Women in Early Modern Hispanic World, Hampshire: Ashgate
Publishing Company, 2008.
70 Carmen Peraita, „Elocuencia y fama: el catálogo de mujeres sabias en la Respuesta
de Sor Juana Inés“, Bulletin of Hispanic Studies, 77/2000, bls. 75.
71 Ellen Gunnarsdóttir, „Trúarheimur kvenna í barokk Mexíkó“, í Kvennaslóðir, rit til
heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi, Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands,
2001, bls. 152–161, hér bls. 153–4.
72 Jean Franco, Plotting Women, bls. 3–22.