Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 88
88
KRISTÍN I. PÁLSDÓTTIR
Í Svarinu ver Sor Juana rétt kvenna til að læra og taka fyllri þátt í
kirkjustarfi. Hún leitar í Biblíuna og finnur þar kafla sem styðja þá skoðun
hennar að konur eigi að minnsta kosti að hafa rétt til að mennta sig. Hún
vísar til orða heilags Híerónýmusar um menntun stúlkna og spyr hvort
ekki sé líklegt að hann hefði viljað mennta nunnurnar sínar og andlegar
dætur úr því að honum þótti mikilvægt að mennta stúlkubörn.80 Síðan
veltir hún upp skoðunum Páls postula á menntun kvenna sem áður er vitn-
að til. Hún segist meðvituð um að auðvitað geti ekki allar konur menntað
sig heldur aðeins þær sem séu sérstökum dyggðum gæddar til svo heilagrar
iðju sem Biblíunám sé. Hið sama eigi að sjálfsögðu við um karlmenn og
lítið vit sé í að láta hvern sem er rannsaka Biblíuna og kynið skipti þar
minnstu. Rök hennar fyrir því eru eftirfarandi:
Orðfimur maður sagði eitt sinn að sá sem ekki kann latínu sé
ekki algjört fífl en að sá sem kunni hana hafi forsendur til að vera
það. Og ég bæti því við að það fullkomnar fíflið (ef fíflsháttur
getur náð fullkomnun) að hafa lagt stund á svolitla heimspeki og
guðfræði og kunna eitthvað í tungumálum. Þá getur fíflið gert
sig að fífli í mörgum fræðigreinum og tungumálum, því algjöru
fífli nægir ekki að gera sig að fífli á móðurmáli sínu eingöngu.81
Á þennan hátt bendir Sor Juana á að það sé ekki kynið sem skipti mestu
máli þegar menntun er annars vegar heldur séu aðrir þættir afdrifaríkari.
Hér getur hún tekið mörg dæmi máli sínu til sönnunar, svo sem siðbótar-
mennina Martein Lúther og Erasmus sem notuðu menntun sína til að
gagnrýna kirkjuna og hlaust lítið gott af því, á kaþólskan mælikvarða.
Þegar Sor Juana hefur bent á mörg dæmi úr Biblíunni og fleiri ritum sem
styðja hugmyndir hennar um menntun kvenna, eins og orð Híerónýmusar,
snýr hún sér að mistúlkunum á Biblíunni, lélegum þýðingum og mál-
fræðivillum:
[H]vílíkum vandræðum stöndum við ekki frammi fyrir með helg
rit, jafnvel varðandi málfræði; hætta er á að notuð sé eintala í
stað fleirtölu eða farið úr annarri í þriðju persónu, samanber
versið úr Ljóðaljóðunum: „Hann kyssi mig kossi munns síns, því
80 Sor Juana vitnar í orð Híerónýmusar til Letu um menntun dóttur hennar; Sor
Juana Inés de la Cruz, The Answer/La respuesta, bls. 84.
81 Sor Juana Inés de la Cruz, The Answer/La respuesta, bls. 80.