Skagfirðingabók - 01.01.1980, Side 40
SKAGFIRÐINGABÓK
þeir urðu samferða niður þessa brekku. Um leið og þeir voru að
fara af stað, tók Einar brennivínsglas upp úr vasa sínum, tók úr
því tappann, saup á og rétti Jóni; Jón tók við fegins hendi, saup
vel á glasinu og rétti það síðan aftur að Einari. En hann tók við
glasinu, lét tappann í og stakk því svo aftur í vasa sinn. Héldu
þeir síðan ferðinni áfram.
Einu sinni, seinni part vetrar, fór Einar út á svonefndar Eggjar,
til að gæta að ís. Eggjarnar eru hár hjalli, eða hóll, sem gengur
vestur úr fjallinu — Breiðafjalli — fyrir utan og ofan Hrauna-
túnið, og er snarbratt ofan af Eggjunum heim undir túngarð. Guð-
mundur, sonur Einars, mun þá hafa verið 7—8 ára, og hafði
hann fengið að fara með pabba sínum í þessa för. Þegar Einar
kom til baka, renndi hann sér beint suður af Eggjunum, alveg
heim að túngarði, með Guðmund á háhesti sínum.
Fleiri sögur hefi eg heyrt um skíðaíþrótt Einars, þótt þær sé
ekki hér ritaðar.
Menntun o.fl.
í húsvitjunarbók Barðshrepps 1855 er Einar talinn vera að
læra undir skóla. Stundaði hann það nám hjá séra Daníel Hall-
dórssyni presti í Glæsibæ við Eyjafjörð.
Þar hefir hann komist nokkuð niður í ýmsum námsgreinum,
svo sem íslenzku, dönsku, ensku og þýzku og reikningi, og auk
þess hefir hann lært þar eitthvað í latínu; en á hana var lögð
mikil áherzla í þá daga sem skólanámsgrein. Dönsku bæði talaði
hann og ritaði og ensku og þýzku skildi hann nokkuð — bók-
málið — en latínan býst eg við að fljótt hafi fallið úr sögunni,
því að ekkert varð úr skólalærdómi hans, hvað svo sem valdið hefir.
Er líklegast að hugur hans hafi meir hneigzt að verklegum störf-
um en andlegum og þess vegna hafi hann hætt við að fara í
skóla. En þrátt fyrir það, þá lagði hann ekki lærdómsiðkanir alveg
38