Skagfirðingabók - 01.01.1980, Blaðsíða 108
SKAGFIRÐINGABÓK
eftir). Var nú orðið auðveldara um vik en áður að fá kennara, því
landssjóður fór að styrkja farkennara.
Fram að aldamótum voru kennurum greiddar u. þ. b. 45 krón-
ur á ári (ef tekið er meðaltal af þeim styrk, sem landssjóður veitti
kennurum í Akrahreppi samkvæmt upplýsingum í B-deild Stjórn-
artíðinda), ef þeir uppfylltu þau skilyrði, sem landssjóður setti
fyrir styrkveitingunni.
Hér á eftir fer skýrsla yfir skólahald í hreppnum árin 1893—
1960. Verður leitazt við að kanna inntak og eðli menntunar Blönd-
hlíðinga umrætt tímabil. Einnig verða sögð nokkur deili á því
fólki, sem annaðist þessa menntun. Um skólahaldsskýrsluna og
kennaratalið verður að taka þetta fram:
Tímabilið 1905—1932 er hvergi í heimildum greint frá kennslu-
stað. Og þó vitað sé um ýmsa staði, þar sem kennt var þessi ár,
hefur ekki verið hægt að staðfesta, hvenær það var. Þess vegna
er dálkurinn auður.
Þar sem kennari dvaldist fáar vikur í stað, kom fyrir, að
nemendur fylgdu honum — t. a. m. ef hann fór á næsta bæ. Af
skýrslunni er því ekki hægt að sjá, hve lengi nemendur voru í skóla.
Svo sem á skýrslunni má sjá, er námsefni ákaflega breytilegt.
Akveðnar námsgreinar voru þó næstum alltaf kenndar; brá ein-
staka sinnum frá. Að öðru leyti var það alveg á valdi kennara
hvað hann kenndi. Stöku sinnum var farið eftir óskum foreldra,
ef kennarinn taldi það fært. Enda þótt Baldvin Bergvinsson t. d.
hafi kennt níu greinar á þremur bæjum veturinn 1894-95, er
ekki þar með sagt, að hann hafi kennt þær allar á hverjum stað-
Bæði þessi atriði má fremur telja til undantekninga. Ef þau
hefðu hins vegar verið tekin með, hefði verið eðlilegast að birta
allar skólahaldsskýrslur í heild, og þær eru mikill bálkur.
Loks er að geta þess, að misræmi er milli skólahaldsskýrslunnar
og kennaratalsins. Sumir kennarar sendu engar skýrslur, kenndu
þó einstakir þeirra býsna mikið. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að
leita uppi alla þá, sem kenndu í hreppnum, er vísast, að einhverja
vanti. Væri betra en ekki, ef hægt yrði að bæta úr því.
106