Skagfirðingabók - 01.01.1982, Blaðsíða 16
SKAGFIRÐINGABÓK
austanverðu, heitir Blönduhlíð. Austan að henni liggur Hjalta-
dalur og heiðar þær, er þar liggja fram af. Þær sveitir greinir
örmjór fjallgarður, er gengur í norður og endar við Hrísháls í
Viðvíkursveit. Einstakir hlutar þessa fjallgarðs eru kenndir við
jarðir þær, er landið eiga. Inn í hann skerast ýmsir þverdalir.
Helztur þeirra er Djúpárdalur, er dregið hefur nafn af ánni, er
eftir honum rennur (Djúpá), en nú er áin kennd við dalinn og
kölluð Dalsá. Norðan við Djúpárdal, upp undan Flugumýri, er
Glóðafeykir.*
Litlu utar en Dalsá fellur í Héraðsvötn, kvíslast þau og mynda
hólma eigi lítinn, er nefnist Borgarey.Þar er ekkert býli.** Út frá
Borgarey liggur Hegranes. Er það allstór eyja milli Austur- og
Vestur-Vatna. Að sunnan greinir hana Kvíakvísl frá Borgarey,
en að norðan nær hún að sjó út.
Austan við Vötnin, út frá Blönduhlíð, liggur Viðvíkursveit.
Nær hún norður að sjó og austur að Hjaltadalsá og Kolku.
Þaðan gengur Hjaltadalur í landsuður, austanvert við fjall-
garð þann, er greinir hann og Blönduhlíð. Að sunnan liggur
Hjaltadalsheiði milli hans og Hörgárdals.
Að austanverðu liggur Kolbeinsdalur samhliða, og greinir
dalina aðeins ávalur ás. í suður frá dalnum, milli hans og Hörg-
árdals, liggur fjalllendi, er kallast Kolbeinsdalsafrétt. Að austan
greinir hann og Svarfaðardal fjallgarður sá, er liggur á Sýslu-
mótum. Norður eftir dalnum rennur Kolbeinsdalsá, sameinast
Hjaltadalsá og nefnist Kolka; fellur út í Skagafjörð, innst og
austast.
Frá Kolbeinsdal gengur Oslandshlíð út með firðinum að
austanverðu. Þar norður frá heitir Höfðaströnd, er dregur nafn
sitt af Þórðarhöfða. Milli þessara sveita og Svarfaðardals liggur
fjallgarður sá, er myndar takmörkin á Skagafjarðarsýslu og
* í handriti er misritað Glóafeykir.
** Þar var reist býlið Sandar 1923, er var í byggð til 1926.
14