Skagfirðingabók - 01.01.1982, Page 148
SKAGFIRÐINGABÓK
jafnvægið og falli. En nú hlýtur hann bráðum að vera kominn.
Hann lítur í kringum sig til að átta sig. Jú, þarna sér hann grilla
í ljósið í Hólakoti. Þá er ekki langt eftir. En við það, að hann
hvarflaði augum sínum frá leiðinni, sem hann var að fara, og
heim að bænum, rak hann fótinn í einhverja ójöfnu og steyptist
áfram.
Enginn veit, hvað raunverulega hefur gerzt fyrir neðan túnið
á Hólakoti þetta fyrsta vetrardagskvöld 1946. Þar var Sveinn
einn, er hann mætti dauða sínum. Einn hafði hann gengið í
gegnum lífið. Einn hafði hann ferðast um sveitir Skagafjarðar
vetur, sumar, vor og haust.
Það var satt, sem gömul kona í Fljótum sagði einu sinni, er
rætt var um hann: „Ó, þetta er eins og einmana fugl á húsþaki,"
eða eins og Davíð Stefánsson segir: „Villtur fugl, sem enginn
ann og aldrei sína gleði fann.“
A þessu hélugráa haustkvöldi liggur einmana gamalmenni
hjálparlaust úti á víðavangi. Engin hlý hönd strýkur kaldan
angistarsvitann afenni hans. Enginn heyrir lágvær hróp hans um
hjálp, þau berast í gegnum héluð sinustráin og deyja þar.
Nú er búið að kveikja á bæjunum. Fólkið nýtur hlýju og
hvíldar eftir amstur og erfiði dagsins og hyggur gott til að
hvílast í hlýjum rúmum fyrstu vetrarnótt 1946.
En örskammt frá hlýju og birtu heimilanna liggur gamli
förumaðurinn einn og ósjálfbjarga og hugsar ef til vill eitthvað á
þessa leið: ,Mig sækir heimþrá. Gef mér vængi og lát mig
gleyma, að ég á hvergi heirna!1 Og engill dauðans kemur og
uppfyllir þessa síðustu ósk hans. — Sveinn lagsmaður er ekki
lengur í tölu lifenda.
Morguninn eftir halda þær Þrastarstaðamæðgur, Sigríður og
Jóna, fótgangandi heimleiðis frá Hofsósi. Þegar þær koma upp
undir túnið í Hólakoti, og þó nokkurn spöl fyrir neðan túnið, sjá
þær mann liggja þar á grúfu í grunnum skurði, sem var aðeins
ein skóflustunga á dýpt. í skurðinum var mjög lítið vatn. Er þær
gæta betur að, sjá þær að þetta er Sveinn gamli og er látinn. Hefir
146