Skagfirðingabók - 01.01.1982, Page 161
AIN SEM HVARF
jafnvel fram af honum svignuðu ribsberjarunnar, hlaðnir hin-
um ljúffengustu berjum, þegar líða tók á sumar. Það var ekki
ýkja mikil fyrirhöfn og þurfti ekki að bera mikið á því, ef
menn voru að krækja sér í svo sem eina lúku. Hinir djörfustu
og fimustu áttu það jafnvel til að vippa sér yfir vegginn og
sækja sér jarðarber. En þá var betra að hafa góða félaga á verði,
a.m.k. meðan Jónas læknir og Hansína réðu ríkjum í læknis-
húsi. Þá er þess að geta, sem að vísu kom ekki við okkur
smástráka, nema þá sem áhorfendur, að þegar dansleikir voru í
Bifröst, gátu menn þurft að bregða sér vestur fyrir samkomu-
húsið ýmissa erinda, t.a.m. að útkljá meiri háttar vandamál.
Fyrir kom að endir slíkra smástyrjalda yrði bað í Sauðánni.
Hagræði mátti það og heita, að ef menn gerðust ölmóðir mjög,
þurfti ekki annað en bregða sér út á stigapallinn vestan á
Bifröst og þeysa göróttum drykk beint í ána. Að vísu var
bagalegt, ef gervitennurnar fylgdu með, eins og fyrir kom.
Þó að það komi kannski Sauðánni ekki beint við, má geta
þess, að milli Læknisbrúar og Bifrastar að utan, árinnar að
vestan og brautarinnar að austan var ljómandi fallegur grasbali.
Þar voru stundum háðir leikar á tyllidögum, s.s. reiptog á
Sjómannadaginn. Fékkst þá ágætis útsýni yfir athöfnina af
Læknisbrúnni.
I augum margra okkar var Læknisbrúin eins konar nafli
heimsins eða a.m.k. miðpunktur Sauðárkróks. Því olli það, að
frá Læknisbrú og niður að sjó, þ.e. eins og áin rann, og frá
Læknisbrú og upp á Nafir, um miðja Kirkjuklauf, skiptist
Krókurinn í tvo hlua: Utkrók og Innkrók eða Suðurkrók, eins
og það var ýmist nefnt. Þessi landamerki voru til margra hluta
nytsamleg. Þannig skiptum við t.a.m. Króknum við merkja-
sölu, útburð auglýsinga, blaða-og bæklingasölu og hringingar
með skólabjöllunni, þegar aksjónir voru eða tombólur. Ef til
vill skipti þó meira máli, að Utkrókur og Innkrókur voru tvö
aðskilin ríki, og var stundum stríð á milli með almennu
herútboði, vopnasmíð og öðru tilheyrandi hjá okkur strákum.
159