Skírnir - 01.04.2001, Page 17
SKÍRNIR ... EINS MANNS SJÓFERÐASKRIF 11
er kunnugt. Þetta er mjög algengt í íslenskum ferðasögum síðari
alda, t.d. Reisubók sr. Olafs Egilssonar (fyrst prentuð 1741) og
Ferðabók Tómasar Sæmundssonar. Ferðasögur einkennast þannig
af spennu milli hlutlægni og huglægni, hins persónulega og þess
ópersónulega, hugarflugs og staðreynda, fróðleiks og skemmtun-
ar, veruleika og tungumáls. Ferðasögum hefur jafnan fylgt krafa
um sannleik jafnvel þótt menn hafi kannski gert sér grein fyrir því
að þær gætu úrelst næsta hratt, því að lönd og lýðir breytast með
degi hverjum, sbr. ummæli Tómasar Sæmundssonar um reisubæk-
ur: „... þær hljóta alltaf að vera einhvörrar tíðar fóstur, og geta svo
framarliga sem tíðinni gengur áfram, ekki haldið lengur gildi eður
verið áreiðanligar.“8 Sannleikur ferðasagna er afstæður, mörkin
milli veruleika og ímyndunar eru oft óljós. Ferðasögur standa
frammi fyrir sömu togstreitu milli raunveruleika og skáldskapar
og skáldsögur og eiga margt sameiginlegt með þeim. Álit og áhugi
manna á ferðasögum hefur aukist hin síðari ár og farið er að líta á
þær sem athyglisverða bókmenntagrein. Aukinn áhugi helst í
hendur við vangaveltur bókmenntafræðinga um uppruna og ræt-
ur skáldsögunnar, en auðvelt er að sýna fram á mikilvægi ferða-
sagna í þróun hennar.9 En víst er að sterkustu tengsl ferðabók-
mennta við skáldsögur felast í ferðamynstri rómönsunnar, for-
móður skáldsögunnar.
Frændsemi við rómönsur
Langflestar ferðasögur snúast eingöngu um ferðina sjálfa. Þær
hefjast á brottför að heiman, síðan er greint frá atburðum ferðar-
innar og því markverðasta sem fyrir augu ber og loks er heimför
og heimkomu lýst. Ferð út í heim felur gjarnan í sér eins konar
leit, þar sem ferðalangurinn yfirgefur átthaga sína, aflar sér ein-
hvers eða bætir úr tilteknum skorti og snýr heim aftur með af-
rakstur erfiðis síns. Þetta þríþætta ferða- og leitarmynstur tengist
byggingu rómönsu náið, enda hafa fræðimenn verið óþreytandi að
benda á skyldleika þessara bókmenntagreina.
8 Tómas Sæmundsson 1947:5, nmgr.
9 Sjá t.d. Adams 1983.