Skírnir - 01.04.2001, Page 33
SKÍRNIR
... EINS MANNS SJÓFERÐASKRIF
27
og ævintýramennska einkenna leit Eiríks en óþreyja og eirðarleysi
setja svip sinn á leit Árna.
Augljóst er að Eiríkur hefur skrifað hjá sér eða jafnvel haldið
dagbók meðan á ferðunum stóð og stuðst við þau minnisblöð þeg-
ar ferðasagan var rituð. Hann hefur nákvæmar dagsetningar á
reiðum höndum, tínir alltaf til hversu mörgum fallbyssuskotum er
hleypt af, hversu margar vatnstunnur voru til og fjölda daga sem
fara í rek og bið. Eiríkur er ungur þegar hann skráir sögu sína og
atburðir standa honum því enn lifandi fyrir hugskotssjónum. Svo
virðist sem Árni skrifi ferðasögu sína að mestu leyti eftir stopulu
minni, sbr. orð hans hér og hvar í sögunni: „mig minnir", „Þar eru
vel fleiri en eg hefi gleymt þeim“ (266), en sagan endar á setning-
unni „Nafn hans man eg ei“ (360). Árni er kominn á efri ár þegar
hann skrifar sögu sína. Dagsetningar, vegalengdir og lýsingar á
veðurfari eru þó nákvæmari en svo að það geti einungis verið eft-
ir minni, s.s. í fyrstu ferðinni frá Islandi. I Kínaferðinni var Árni
látinn halda skipsdagbók sem e.t.v. hefur orðið til þess að ákveðin
atriði festust honum í minni.
Stíll þeirra Eiríks og Árna er yfirleitt einfaldur og látlaus. Ei-
ríkur slettir bæði dönsku og latínu allvíða en lætur oftlega skýr-
ingar fylgja með. Hjá honum bregður fyrir einu og einu stílbragði,
t. d. þessari líkingu: „Var þar þá sá mesti kuldi og frost með snjó
svo bæði kaðlar og segl stóðu sem járn“ (452). Árni beitir stíl-
brögðum í svipuðum mæli og Eiríkur. Hann notar beina ræðu
mikið og hefur gaman af að skjóta óþarfa upplýsingum eða útúr-
dúrum inn í sögu sína. I frásögn Eiríks er fátt um samtöl, sviðsett
orðaskipti ferðalangs og innfæddra (Indverja og Kínverja) geta
tæplega talist eðlilegar samræður. I tungumáli Eiríks er guð merk-
ingarmiðja, og orsök og afleiðing eru á hans valdi. Merkingarupp-
spretta tungumálsins hjá Árna er líkaminn; svangur, straffaður,
sjúkur, „sundur parteraður“ (293) og lostafullur.
Viðhorf þeirra Eiríks og Árna til trúarinnar eru ólík og birtist
það allvel í sögum þeirra. Eiríkur trúir á forsjónina sem framhald
sköpunarverksins og saga hans er römmuð inn af trúarlegri orð-
ræðu. í formála fær Eiríkur ekki nógsamlega þakkað guði fyrir
vernd og föðurlega umhyggju. Hann er þess fullviss að líf og