Skírnir - 01.04.2001, Síða 82
76
SIGURÐUR PÉTURSSON
SKÍRNIR
sonar, er Jón Ólafsson sjálfur bestur heimildarmaður, þar sem
hann var í fóstri hjá Páli Vídalín (1667-1727) lögmanni, bróður
Sigríðar. Sigríður biskupsfrú hafði látist fáum árum áður en Jón
lýsir henni og má ætla að störf hennar hafi verið mörgum kunn
þannig að um nokkuð almenna vitneskju hafi verið að ræða á þeim
tíma. Athugasemd Jóns um Ólöfu Högnadóttur hefur hins vegar
valdið nokkrum heilabrotum. Jón hlýtur að eiga við dóttur síra
Högna Guðmundssonar (d. 1678) í Einholti en á hinn bóginn er
ekki vitað til þess að hann hafi átt dóttur sem hét Ólöf. Elín (f. um
1663) hét hins vegar ein dóttir hans. Var hún ógift bústýra á Svína-
felli í Öræfum þar sem hún ól upp systurson sinn, Sigurð Sveins-
son (1700-1758), sem síðar varð prestur í Heydölum. Lenti hann
nokkuð oft í deilum við samferðamenn sína og er hér líklega kom-
inn sá sem Jón Ólafsson kallar síra Sigurð dóla. Má því ætla að Jón
hafi misminnt og nefnt Elínu Ólöfu.
Athugasemdir Jóns úr Grunnavík eru einhverjar merkustu
upplýsingar um íslenskar menntakonur á 17. og 18. öld sem fund-
ist hafa til þessa en víðar geta þó leynst heimildir. I ættartölu Jóns
Jakobssonar (1738-1808) sýslumanns, sem séra Jón Helgason
gamli í Hofsþingum (1699-1784) hefur ritað, er að finna fróðlega
lýsingu á móðurömmu Jóns Jakobssonar, Kristínu Ólafsdóttur
(1664-1733), konu sírajóns Jónssonar (um 1663-1735) í Garpsdal
og síðar á Staðastað.20 Höfundur segir þar að Kristín hafi verið
mikil atgerviskona til náms og að mál manna hefði verið að hún
hefði kunnað að tala latínu í uppvexti sínum. Hefði hún lært það
af því einu að hlusta á hverjum vetri á stjúpa sinn Björn Þórðarson
(1631-1716) kenna smásveinum, sonum göfugra manna. Hefði
20 Lbs 2446 4to, 39: „Kristin Olafs D. atgiórfe til náms, svo mál manna var ad hiin
kinne tala latinu i uppvexte synum, af þvj eina sem hun a hverium vetre heirde
þad mál tracterad, þvj ad Biórn kiende jafnann smásveinum, sonum gófigra
manna, og oft hafde hun veitt þeim stirk ad hliöde in repetendo et componen-
do, og jeg heirde sem fleire adrer siálfann Biórn mióg dást ad hennar ingenio."
Frásögn af latínukunnáttu Kristínar rakst ég fyrst á í verkinu Borgfirzkar œvi-
skrár VII, 137. Erfitt reyndist að finna frumheimildina og hefði það varla tek-
ist án aðstoðar starfsmanna Landsbókasafns sem ég stend í mikilli þakkarskuld
við. Þá vil ég og sérstaklega þakka Kristjáni Sveinssyni fyrir veitta aðstoð og
góðar ráðleggingar við þessa heimildarleit.