Skírnir - 01.04.2001, Page 83
SKÍRNIR
VORU TIL LÆRÐAR KONUR ... Á ÍSLANDI ?
77
hún oft hjálpað drengjunum í hljóði við að rifja upp og semja á lat-
ínu. Kveðst Jón Helgason, eins og fleiri, hafa heyrt Björn sjálfan
dást mjög að gáfum hennar.21
Konur þær sem við höfum nokkuð haldgóða vitneskju um að
hafi kunnað eitthvað í latínu eru því orðnar sjö. Hvað áttu þessar
konur sammerkt? Þær voru allar fæddar á 17. öld, sú elsta ekki
síðar en upp úr 1620 og sú yngsta 1677. Fimm þeirra voru prests-
dætur. Sex ólust upp þar sem húsbændur voru prestvígðir menn
og fimm urðu prestskonur. Þetta kemur varla á óvart en öllu at-
hyglisverðara er hversu margar koma úr umhverfi óbreyttra presta.
Af þessum konum sem nefndar hafa verið eru einungis tvær úr
æðstu stétt: biskupsdæturnar tvær. Þetta sýnir okkur að lær-
dómsiðja með háleitum markmiðum fór fram víðar á Islandi en í
húsum stórmenna og það vekur forvitni um það hvernig þessar
konur lærðu latínuna. Páll faðir Guðlaugar og Guðnýjar var
prestur í Skálholti þegar þær voru að alast upp og því ætti ekki að
hafa verið erfitt að finna þeim kennara hafi faðir þeirra ekki kennt
þeim sjálfur. Brynjólfur biskup hefur ef til vill eitthvað kennt dótt-
ur sinni þó svo að hann síðar meir fengi sérstakan mann, Daða
Halldórsson (um 1638-1721), til þess að kenna henni, eins og
flestum er kunnugt. Sigríður frá Víðidalstungu átti móður, Hildi
Arngrímsdóttur (1646-1724) lærða, sem var vel menntuð gáfu-
kona og skáld, en það var bróðurnum Páli að þakka að henni tókst
að læra eitthvað í latínunni um 1690 eða eins og Jón úr Grunnavík
segir: „Paall bröder hennar hafde kendt henne eitt sumar, þá hann
var schola meistare, enn hun forfóllud frá annare vinnu.“22 Sigríð-
ur biskupsdóttir kann að vísu að hafa lært latínu í biskupstíð föð-
ur síns á Hólum 1684-1690 en þó er ekki síður sennilegt að hún
hafi lært hana af einhverjum bræðra sinna eða jafnvel heimilis-
kennara á Leirá þar sem móðir hennar, biskupsekkjan Guðríður
Þórðardóttir (um 1645-1707), bjó rausnarbúi eftir lát manns síns.
21 Kristín Ólafsdóttir var dóttir Ólafs Vigfússonar að Stóra-Ási og síðar á Signýj-
arstöðum í Hálsasveit og konu hans Guðlaugar Þorsteinsdóttur. Hún missti
föður sinn ung en ólst upp á Signýjarstöðum hjá móður sinni og stjúpa, Birni
Þórðarsyni, sem verið hafði prestur í Reynisþingum.
22 Add. 3 fol. 154.