Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 188
182
SIGURÐUR KRISTINSSON
SKÍRNIR
að hafa fyrir fáeinum árum heyrt útvarpsviðtal við bandarískan
málvísindamann vegna útkomu fræðirits um tungumál sem eru í
þann veginn að deyja út eða eru þegar útdauð. Því miður er nafn
bókar og höfundar gleymt, en þó festust í minni þau spádómsorð
hans að á komandi öldum muni tungumálum í heiminum halda
áfram að fækka þar til einungis fjögur eða fimm verði eftir, en þá
muni skapast einhvers konar jafnvægi. I skýrslu á vegum Samein-
uðu þjóðanna mun því einnig vera spáð að um 90% tungumála
heims verði útdauð um næstu aldamót.4 Meginástæðan fyrir
fækkun tungumálanna er eflaust sú að mál sem fáir tala virðast til
trafala í „alþjóðaþorpinu“ og því má búast við að með aukinni al-
þjóðavæðingu muni litlu málin eiga æ meir í vök að verjast. Sögu-
legt víti til varnaðar er írskan, sem fór verulega halloka á fyrri
hluta 19. aldar, þegar pólitískar og efnahagslegar aðstæður leiddu
til þess að hagsmunum alls þorra fólks varð betur borgið ef það
notaði ensku. Irskan átti sér ekki viðreisnar von sem lifandi mál
eftir að farið var að líta á hana sem mál fortíðar og fátæktar.5 Svip-
uð örlög gætu beðið íslenskunnar ef litið væri á hana sem hindrun
á vegi framfara og hagsældar.
Af framansögðu má vera ljóst að við getum ekki gengið að tung-
unni vísri. Hún tekur sífelldum breytingum og gæti þróast á ýmsa
vegu, hratt eða hægt, á róttækan hátt eða yfirborðslegan, í átt til
eyðingar eða eflingar. Nú þrengir að íslenskunni bæði í viðskiptum
og fræðistörfum. Ekki er útilokað að innan fárra kynslóða muni ís-
lensk börn alast upp við það viðhorf að mennta- og athafnafólk noti
ensku í vinnunni og muni ekki „þann dag þegar íslenskan var
vinnumál á sama hátt og enginn núlifandi maður eða kona man eft-
ir því þegar danska var mál embættismanna hér á landi“.6 Islensk
stjórnvöld reyna að sporna við slíkri þróun, enda hefur málræktar-
stefna ávallt verið skýr og sterkur þáttur í íslenskri menningarpóli-
tík. Aðstæður okkar eru að þessu leyti ólíkar því sem var á Irlandi
4 Birna Arnbjörnsdóttir, „íslenskan, enskan og atvinnulífið“, Lesbók Morgun-
blaðsins 7. apríl 2001, bls. 13.
5 Sjá Davíð Loga Sigurðsson, „Er íslensk þjóðerniskennd frá Oz?“, Skírnir 172,
1998, bls. 201.
6 Birna Arnbjörnsdóttir, „Islenskan, enskan og atvinnulífið“, bls. 13.