Skírnir - 01.04.2001, Síða 192
186
SIGURÐUR KRISTINSSON
SKÍRNIR
vera hlutlæg staðreynd, en jafnframt sé rækilega séð til þess að
fólk sannfærist um eigið þjóðerni vegna þess að án slíkrar sann-
færingar væri mikilvægum hagsmunum ógnað. Ef þetta er rétt
má ef til vill líta á þjóðernislega hugmyndafræði sem tilhneigingu
til að ýkja og bjaga skoðanir fólks á eigin þjóðerni og annarra,
eftir því sem kemur sér best til að tryggja mikilvæga hagsmuni.
En fráleitt væri að líta á hlutverk og afleiðingar slíkrar hug-
myndafræði sem nægileg rök fyrir því að allar staðhæfingar um
að fólk sé einhverrar þjóðar séu ósannar. Staðreyndir um þjóð-
erni gætu að hluta til verið óháðar hugmyndafræðilegri umræðu
um þjóðerni. Ekki má heldur gleyma þeim möguleika að stað-
reyndir um þjóðerni verði að einhverju leyti til vegna hug-
myndafræðilegrar umræðu. Með því að leggja ofuráherslu á til-
tekna sameinandi þætti, þá efli umræðan sameiginlega sjálfs-
mynd eða sjálfsskilning, sem síðan er mikilvægur hluti þeirrar
staðreyndar að fólkið sem um ræðir er í raun og sannleika ein
þjóð.
Hér er ekki ætlunin að gera grein fyrir þjóðarhugtakinu, held-
ur einungis að halda fram þeirri hugmynd að það að vera einhverr-
ar þjóðar sé samsett úr huglægum þætti og hlutlægum.14 Hlutlægi
þátturinn lýtur til dæmis að áliti annarra, hneigðum manns og
venjum (sbr. að vera „Islendingslegur"), ætt og uppruna, að
ógleymdum lagalegum rétti.15 Huglægi þátturinn lýtur hins vegar
að sjálfsskilningi eða sjálfsmynd sem mótast meðal annars af fé-
lagslegu umhverfi, uppeldi og orðræðuhefð. Þessir þættir hafa síð-
an margvísleg áhrif hver á annan. Til dæmis virðist sennilegt að
orðræða sem upphefur og ýkir hlutlæga þætti þjóðernis, geti
14 Kristján Árnason gerir skarplega grein fyrir þjóðarhugtakinu og tengslum þess
við tunguna í „Landið, þjóðin, tungan - og fræðin", bls. 450-51. Sjá einnig
Guðmund Hálfdanarson, „Hvað gerir Islendinga að þjóð?“, Skírnir 170, 1996,
bls. 7-31.
15 Samkvæmt þessu segir ríkisborgararéttur ekki alla söguna um eiginlegt þjóð-
erni manns. Ríkisborgararéttur skilgreinir þjóðerni í lagalegum skilningi, en
það þjóðernishugtak sem hér er til umfjöllunar er víðara. Munur hugtakanna
kemur til dæmis fram í því að misjafnt er hve mikla áherslu einstök ríki leggja
á að þeir einir geti orðið ríkisborgarar sem sýni fram á að þeir uppfylli önnur
skilyrði þjóðernis, svo sem kunnáttu í sögu þjóðarinnar.