Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 210
204
LÁRA MAGNÚSARDÓTTIR
SKÍRNIR
Þarna bendir Gunnar réttilega á að sýn á viðhorf og markmið eru ekki hið
eina sem sagnfræðingar geta lesið úr lagalegum heimildum. Það er líka
mikilvægt að skilja að hlýðniskylda var ekki aðeins orð, heldur nákvæm-
lega skilgreint lagalegt hugtak og reyndar eitt af undirstöðuhugtökum
stofnunarinnar. Ollum bar skylda til að hlýða yfirboðara sínum sam-
kvæmt kirkjulögum; við óhlýðni lágu þungar refsingar, nefnilega bann-
færing hin meiri/ Kanónískur réttur var frábrugðinn öðrum lögum hér-
lendis á miðöldum á þann hátt að við samningu hans var aldrei tekið mið
af íslenskum aðstæðum. Því segir hann lítið um íslensk viðhorf eða að-
stæður.
Þá þarf líka að spyrja hvort kanónískur réttur hafi gilt á Islandi. Því
verður að svara neitandi ef litið er til tímans fyrir 1275, á meðan kristinna
laga bálkur var ekki annað en nokkrar samþykktir byggðar á kanónískum
rétti, skrifaðar í veraldlega lögbók, dæmdar á veraldlegu þingi. Eftir þann
tíma hlýtur svarið hins vegar að vera jákvætt. Við lögtöku kristinréttar Arna
gengust íslendingar undir vald páfa og kirkjunnar á andlega sviðinu og lög-
giltu kanónískan rétt á íslandi. Það var alþjóðlegur kirkjuréttur, en hvorki
íslensk né norsk rit- eða hugmyndasmíð.7 8 í nýju lögunum fékk kirkjan full-
7 Um hlýðniskylduna sjá t.d. Guðrúnu Ásu Grímsdóttur, „Um afskipti erkibisk-
upa af íslenzkum málefnum á 12. og 13. öld“, Saga 20 (1983), bls. 28-63. Ég hef
einnig fjallað um hugtakið óhlýðni (contumacia) í kanónískum rétti; sjá Láru
Magnúsardóttur, „Agameðul kirkjunnar fyrir siðaskipti: Bannfæringar", Is-
lenska söguþingið 28.-31. maí 1997. Rdðstefnurit. II. bindi (Reykjavík 1998), bls.
210-22. Þetta kemur víða fram í statútum, sbr. t.d. DIII: 592.
8 Magnús Stefánsson hefur rakið kristinrétt Árna til Noregs að miklu leyti; sjá
Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“ (í þýðingu Sigurðar Lín-
dal), Saga Islands. III. bindi (Reykjavík 1978), bls. 151-54. Samanburður minn á
nokkrum atriðum íslenska kristinréttarins frá 1275 við lagasafn kaþólsku mið-
aldakirkjunnar bendir eindregið til að þar sé einnig um að ræða beint samband,
sbr. Láru Magnúsardóttur, „Heimsmynd almúgafólks á 18. öld“, óbirt BA-rit-
gerð við Háskóla íslands (1993), bls. 62-63. Að auki má benda á mikil líkindi við
kirkjulög annars staðar, t. d. að spænsk lög um bann af sjálfu verkinu (ipso facto)
eru einnig nákvæmlega eins og þau íslensku um sama efni: Alfonso X el sabio,
Las siete partidas. Antologia. Seleccíon, prólogo y notas de Francisco López
Estrada y María Teresa Lópes García-Berdoy. Odres nuevos. Clásicos medi-
evales en castellano actual (Madríd 1992), bls. 113-114. Sjá einnig Láru Magnús-
ardóttur, „Agameðul kirkjunnar fyrir siðaskipti: Bannfæringar", bls. 217. Engin
ákvæði voru um kristinrétt í Járnsíðu, sem er undanfari bæði kristinréttar hins
nýja og Jónsbókar vegna þess að ákvörðunin um skiptingu valdsins hafði verið
tekin. Þörfin fyrir kristinréttarákvæði í veraldlegri lögbók var þar af leiðandi
ekki fyrir hendi. Sjá Einar Laxness, Islands saga a-ö. Alfræði Vöku-Helgafells
(Reykjavík 1995), bls. 27-30. Slíkur aðskilnaður hafði þegar átt sér stað í Nor-
egi; sjá Magnús Stefánsson, „Kirkjuvald eflist" (í þýðingu Björns Teitssonar),
Saga íslands. II. bindi (Reykjavík 1975), bls. 126.