Skírnir - 01.04.2001, Page 212
206
LÁRA MAGNÚSARDÓTTIR
SKÍRNIR
ús telji einnig að kristinrétturinn hafi verið í fullu gildi hérlendis og mið-
ar þá við að endanlegur friður hafi verið kominn á um málið um miðja 14.
öld.15 Eg tel hins vegar að ástæða sé til að skoða nánar heimildirnar sem
þessi vafi byggist á,16 en lítil ástæða sé til að efast um gildi laganna af þeirri
einföldu ástæðu að þótt upp kæmu ágreiningsefni var greinilega farið eftir
þeim að langmestu leyti.
Eftir lögtöku kristinréttar þurfti kirkjan ekki að leita samþykkis Al-
þingis til lagasetningar, enda gerði hún það ekki. Hins vegar settu íslensk-
ir biskupar, eða aðrir hérlendir klerkar, ekki heldur lög. Þeir kynntu þau
lög sem þeim fannst máli skipta í statútum og skipunarbréfum og eins ef
tilkynningar um nýmæli bárust frá höfuðstöðvunum í Róm.17 Þótt bréf
þessi séu kennd við biskupana, og stundum sé látið að því liggja að þau
gefi eitthvað til kynna um persónueinkenni þeirra, er ljóst að þeir áttu
sjaldnast, ef nokkurn tíma, upptökin að þeim. I langflestum tilvikum eru
slík bréf skrifuð við ákveðnar aðstæður, t.d. embættistöku eða vegna þess
að eitthvert sérstakt mál veldur því að gert er heyrinkunnugt hvernig
ákveðin lög hljóða. Sjaldnast voru nýmæli í slíkum bréfum eftir 14. öld-
ina, því að oftast var um að ræða áminningar um lög sem áttu að vera
þekkt. Það er einnig ljóst að við þessar nýju aðstæður opnuðust á nýjan
leik fleiri víddir í deilumálum. Einnig ollu nýju lögin beinlínis deilum.
Staðamálin síðari komu upp á Islandi eftir að Norðmenn höfðu lögtekið
nýjan kristinrétt og nýr íslenskur biskup, Árni Þorláksson, tók að halda
fram ákvæðum kirkjuréttarins um kirkjueignir 1269 í samræmi við stefnu
hinnar alþjóðlegu kirkju og samkvæmt fyrirmælum erkibiskupsins, sem
var næsti yfirmaður hans.18 Heitir hann síðan Staða-Árni. Deilurnar
héldu áfram eftir að kristinréttur hinn nýi hafði verið lögtekinn 1275, þótt
ákvæðin um stjórn kirkjueigna hefðu þar verið samþykkt.19
Kirkjulögin hafa því gildi fyrir íslenska sagnfræðinga, sem felst fyrst
og fremst í því að þau lýsa markmiði stofnunarinnar og veita aðgang að
15 Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 253.
16 Einnig er ástæða til að endurskoða það sem kallað hefur verið lögtaka kristin-
réttarins í Hólabiskupsdæmi (sbr. DIIII: 98).
17 James Brundage, Medieval Canon Law (Lundúnum og New York 1995), bls.
160.
18 Bent hefur verið á erfiðleika í umræðu um staðamál hin síðari sem mátti rekja
til þess að leikmenn og klerkar töluðu ekki lengur sama tungumál. Sjá Magnús
Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, bls. 140 og Sigurð Líndal, „Um
þekkingu íslendinga á rómverskum og kanónískum rétti frá 12. öld til miðrar
16. aldar“, Úlfljótur 50 (1997), bls. 253. Þetta á ekki almennt við fyrr en Árni
gerði staðakröfurnar 1269.
19 Einar Laxness, Islands saga a-ö, bls. 54, „Kirkjulagagreinar um rétt yfir kirkj-
um og kirkjueignum", sbr. DI II: 52-55. Þessar lagagreinar er talið að Árni
biskup Þorláksson hafi birt til að sanna rétt kirkjunnar til kirkjueigna 1269.