Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Page 34
A l i c e M u n r o
34 TMM 2013 · 4
Þegar hún fór af stað með undirbúninginn var öllu nema því allra
nauðsynlegasta sópað burtu. Ódýrasta gerð af kistu, tafarlaust ofan í
jörðina, engin athöfn af neinu tagi. Útfararstjórinn hafði gefið í skyn að
þetta væri ólöglegt en þau Rich höfðu verið með allar staðreyndir á hreinu.
Þau öfluðu sér upplýsinga næstum því ári áður þegar endanleg greining á
krabbameininu hennar lá fyrir.
„Hvernig átti ég að vita að hann myndi stela frá mér senunni?“ hafði hún
sagt.
Fólk hafði ekki átt von á hefðbundinni athöfn en það hlakkaði til að upp-
lifa nútímalega samkomu þar sem lífinu væri fagnað. Uppáhaldstónlistin
hans spiluð og allir héldust í hendur og segðu sögur sem vitnuðu um ágæti
Rich um leið og gert væri góðlátlegt grín að sérvisku hans og fyrirgefan-
legum göllum hans.
Einmitt eitthvað svona sem Rich hafði sagst hafa ímugust á.
Þannig að þetta fór allt fram með hraði og í kyrrþey og brátt tók hin
almenna og ástúðlega athygli sem Nita fann fyrir að réna þó að hún þættist
svo sem vita að einhverjir segðust enn hafa áhyggjur af henni. Þannig töluðu
þó ekki Virgie og Carol. Þær sögðu bara að ef hún ætlaði að fara að hrökkva
upp af núna, áður en hún nauðsynlega þyrfti, væri hún eigingjörn tík. Og
að þær ætluðu að banka upp á hjá henni á næstunni og hressa hana við með
Gray Goose vodka.
Hún sagði þeim að hún væri ekki að fara að hrökkva upp af þó að reyndar
þætti henni það að vissu leyti vera rökrétt.
Krabbameinið var „í rénun“, hvað sem það nú annars þýddi. Þetta táknaði
ekki að það væri horfið. Að minnsta kosti ekki fyrir fullt og allt. Lifrin var
aðalaðgerðasvæðið og svo lengi sem hún hélt sig við nartið kvartaði lifrin
ekki. Það hefði bara gert vinkonur hennar daprar að minna þær á að hún
mætti ekki einu sinni fá sér léttvín, hvað þá vodka.
Geislameðferðin í vor hafði þá gert henni eitthvað gott eftir allt saman.
Núna er hásumar. Gulan í andlitinu virðist hafa gefið eftir en kannski er það
bara að hún hefur vanist henni.
Hún fer snemma á fætur og þvær sér og klæðir sig í þau föt sem eru hendi
næst. En hún klæðir sig þó og þvær sér, burstar tennurnar og greiðir hárið
sem hefur vaxið ágætlega undanfarið, grátt í kringum andlitið og grátt að
aftan, eins og það var áður. Hún litar á sér varirnar og málar augabrýnnar
sem eru núna þunnar. Af ævilangri virðingu fyrir grönnu mitti kannar hún
árangur sinn á því sviði þó að hún viti að rétta lýsingin á henni núna er ein-
faldlega „horuð“.
Hún situr í rúmgóða hægindastólnum sínum með bókastafla og óskoðuð
tímarit í kringum sig. Hún sötrar varlega úr krúsinni dauft jurtate sem núna
kemur í staðinn fyrir kaffi. Einu sinni hélt hún að hún gæti ekki lifað án
kaffis en svo hefur komið í ljós að það er bara heit krúsin sem hún þarf að
hafa í höndunum, krúsin er það sem heldur hugsununum gangandi eða hvað