Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Side 38
A l i c e M u n r o
38 TMM 2013 · 4
„Ég ætlaði ekki að láta þér bregða,“ sagði hann. „Ég var að leita að
dyrabjöllu eða einhverju. Ég bankaði aðeins hérna á dyrastafinn en líklega
heyrðirðu ekki í mér.“
„Afsakið,“ sagði hún.
„Ég á víst að kíkja á rafmagnið hjá þér. Ef þú gætir vísað mér á töfluna.“
Hún vék til hliðar og hleypti honum inn. Hún hugsaði sig um eitt
augnablik.
„Já. Í kjallaranum,“ sagði hún. „Ég skal kveikja ljósið. Þú finnur þetta.“
Hann lokaði dyrunum á eftir sér og beygði sig niður til að fara úr skónum.
„Þetta er óþarfi,“ sagði hún. „Það er ekki eins og rigni núna.“
„Get alveg eins farið úr þeim samt. Þetta er vani hjá mér. Þó að ég ati ekki
út hjá þér gólfin gæti ég skilið eftir mig rykför.“
Hún fór inn í eldhús, treysti sér ekki til að setjast niður fyrr en hann væri
farinn.
Hún opnaði fyrir honum dyrnar inn í eldhús þegar hann kom aftur upp
tröppurnar úr kjallaranum.
„Allt í lagi?“ sagði hún. „Þú hefur fundið þetta?“
„Allt í fína.“
Hún var að fylgja honum aftur að útidyrunum þegar rann upp fyrir henni
að það var ekkert fótatak að baki henni. Hún sneri sér við og sá að hann stóð
ennþá í eldhúsinu.
„Gætirðu nokkuð græjað eitthvað handa mér að borða?“
Rödd hans hafði breyst, það var kominn brestur í hana, hún var
orðin skrækari og minnti hana á grínista í sjónvarpinu að herma eftir
sveitamönnum. Í birtunni frá þakglugganum sem baðaði eldhúsið sá hún að
hann var ekki eins ungur og hún hafði haldið. Þegar hún opnaði útidyrnar
áðan sá hún bara grannvaxinn líkama en andlitið var myrkvað í glampa
morgunbirtunnar. Núna sá hún að líkami hans var vissulega grannvaxinn
en fremur slitinn en drengjalegur, og hann bar sig hengilmænulega. Hann
var langleitur í framan og húðin gróf, ljósblá augun útstæð. Í svipnum var
kerskni en líka þrjóska þess sem er vanur að fara sínu fram.
„Það vill svo til að ég er með sykursýki“, sagði hann. „Ég veit ekki hvort
þú þekkir einhvern með sykursýki en staðreyndin er sú að ef maður verður
svangur þá verður maður að borða. Annars fer kerfið allt úr skorðum. Ég
hefði átt að borða áður en ég kom en ég var að flýta mér. Er þér sama þó að
ég setjist niður?“
Hann var þegar sestur við eldhúsborðið.
„Áttu nokkuð kaffi?“
„Ég á te. Jurtate. Viltu það?“
„Jájá. Endilega.“
Hún skammtaði te í síu, setti ketilinn í samband og opnaði ísskápinn.
„Ég er ekki með mikið hérna“, sagði hún. „Eitthvað af eggjum. Stundum