Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 41
E i t u r
TMM 2013 · 4 41
„Það sjást eiginlega aldrei lestir hérna.“
„Jæja. Gott. Ég fór niður í skurðinn sem liggur í kringum suma af þessum
vangefnu litlu bæjum. Svo birti af degi og mér var ennþá óhætt nema þar sem
teinarnir lágu yfir veginn og þá hljóp ég. Svo leit ég í áttina hingað og sá húsið
og bílinn og sagði við sjálfan mig: þetta er málið. Ég hefði getað tekið bílinn
hans pabba gamla en ég er enn með smá glóru í hausnum, sko.“
Hún vissi að hann vildi að hún spyrði sig hvað hann hefði gert af sér. Hún
vissi líka að því minna sem hún vissi því betra.
Allt í einu varð henni hugsað til krabbameinsins, í fyrsta skipti síðan hann
kom inn í húsið. Hún hugsaði með sér að krabbinn frelsaði hana, gerði hana
óhulta.
„Hvers vegna brosirðu?“
„Ég veit það ekki. Brosti ég?“
„Þú hefur örugglega gaman af sögum. Á ég að segja þér sögu?“
„Ég vil frekar að þú farir.“
„Ég fer. En fyrst segi ég þér sögu.“
Hann stakk hendi í rassvasann. „Hérna. Sjáðu þessa mynd hérna.“
Þetta var ljósmynd af þremur manneskjum, tekin í stofu og blómagardínur
í bakgrunni. Gamall maður – eða ekki mjög gamall, kannski á sjötugsaldri –
og kona á svipuðum aldri sátu í sófa. Mjög stór og mikil kona sat í hjólastól
þétt upp við annan enda sófans og örlítið framan við hann. Gamli maðurinn
var breiðleitur og gráhærður, augun voru pírð og munnurinn dálítið opinn,
eins og hann væri með asma, en hann brosti eins vel og hann gat. Gamla
konan var mun minni, með hárið litað brúnt og varalit. Hún var klædd í það
sem áður var kallað bændablússa, mussu með litlum rauðum slaufum um
úlnliðina og hálsinn. Hún brosti ákveðið, jafnvel ákaflega, varirnar huldu
kannski ljótar tennur.
En það var unga konan sem dró að sér athyglina. Fjarlæg og risavaxin, í
björtum og víðum kjól, dökkt hárið uppsett með litlum krullum yfir enn-
inu, kinnarnar löfðu niður á háls. Og þrátt fyrir allt þetta bungandi hold var
lymskufullur ánægjusvipur á andlitinu.
„Þetta er móðir mín og þetta er faðir minn. Og þetta er systir mín,
Madelaine. Í hjólastólnum. Hún fæddist skrýtin. Ekkert sem neinn læknir eða
neinn annar hefur getað gert fyrir hana. Og hún át eins og svín. Alveg frá því
ég man eftir mér hefur verið slæmt á milli okkar. Hún var fimm árum eldri
en ég og gerði ekki annað en að kvelja mig. Kastaði öllu lauslegu í mig, hrinti
mér og reyndi að keyra yfir mig á helvítis hjólastólnum. Afsakaðu orðbragðið.“
„Þetta hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þig. Og fyrir foreldra þína.“
„Hmh. Þau lögðust bara kylliflöt og létu hana traðka á sér. Þau fóru með
hana í kirkjuna og presturinn sagði bara að hún væri guðsgjöf. Þau fóru með
hana í þessa kirkju og hún vælir eins og einhver fokking breimandi köttur
og þau sögðu: Ó, hún er að reyna að búa til tónlist, ó guð fokking blessi hana.
Afsakaðu orðbragðið aftur.