Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Page 66
66 TMM 2013 · 4
Kristín Eiríksdóttir
Hundrað og fimmtíu fermetrar
á hundrað þúsund kall
Þau gátu ekki annað en tekið íbúðina. Hundrað og fimmtíu fermetrar á
hundrað þúsund kall var fáránlega vel sloppið. Vinir þeirra hírðust margir
hverjir í gluggalausum kjallaraherbergjum og borguðu svipað. Staðsetningin
var líka fín, ekki frábær, ekki beinlínis í bænum, en samt ágæt. Leigusalinn
virtist líka alveg ákveðinn í að þau væru framtíðarleigjendurnir. Ekkert
annað virtist koma til greina.
Svo þau sögðust ætla að flytja inn um mánaðamótin. Um leið og þau
misstu þrjátíu fermetra risíbúð í Norðurmýrinni sem þau höfðu leigt á
hundrað og þrjátíu þúsund síðasta árið. Dóttir eigandans var óvænt á leið
heim úr námi og þar sem Dáni og Æsa leigðu svart var ekkert hægt að gera.
Þau fengu tvær vikur til að finna sér annað og tæma íbúðina.
Guð minn almáttugur, höfðu vinir þeirra, Katla og Gummi, sagt; þið
endið í barnaherberginu hjá einhverjum fjarskyldum ættingja. Ástandið
hefur versnað síðan þið voruð á leigumarkaðnum.
Fyrir ári síðan? hikstaði Æsa og Katla hristi höfuðið. Versnað um helming,
þið trúið því ekki hvað viðgengst núna. Svo dró hún fram tölvuna sína og
fann auglýsingu sem gengið hafði á facebook. Fjörutíu fermetra gluggalaus
hellir í efra-Breiðholtinu á 170.000.
Skilurðu núna? spurði hún og Æsa fékk kökk í hálsinn. Dáni varð pirraður.
Þetta reddast alveg, sagði hann, í versta falli tjöldum við í Laugardalnum
og það verður fínt. Við Æsa verðum bara í útilegustemningu þangað til restin
flytur til Noregs og það losnar um íbúðir.
Honum er alveg sama, sagði Æsa og ætlaði að vera hneyksluð en varð samt
svolítið stolt, honum væri í alvörunni sama þó að þau þyrftu að búa á götunni.
Hann vill að við lendum á götunni, flissaði hún.
Þið eruð heldur ekki með börn, sagði Katla og nú var hún orðin pirruð.
Gummi bætti við að þar til börnin kæmu til sögunnar, skipti raunveruleik-
inn engu máli.
Um kvöldið þegar þau voru lögst til að sofa varð Æsa aftur áhyggjufull. Hún
fór í huganum yfir alla sem hún þekkti og reyndi að rifja upp hvort einhver