Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Page 68
K r i s t í n E i r í k s d ó t t i r
68 TMM 2013 · 4
Íbúðin var á efri hæð í tvíbýlishúsi og aftan við það var lítill illa hirtur
garður, fullur af illgresi, drasli og háu gulu grasi. Leigusalinn stóð á tröpp-
unum, kæfugrár eldri maður með skyggð gleraugu og í síðri úlpu. Hann var í
hóstakasti þegar þau bar að húsinu en jafnaði sig síðan og rétti þeim höndina
sem hann hafði borið fyrir hóstann skömmu áður.
Hann kynnti sig sem Hinrik og sagði útidyrnar vera bólgnar og kviklæstar
en hann lofaði að láta laga það áður en þau flyttu inn.
Þau komu inn í flísalagt anddyri þar sem héngu yfirhafnir og skógrindin
var full af skófatnaði. Lyktin var strax óþægileg, súr keimur af pípureyk. Æsa
fitjaði upp á nefið og pírði augun inn á þröngan myrkvaðan gang.
Húsgögnin standa hérna enn, sagði Hinrik afsakandi og að það myndi
henta honum langsamlega best ef þau fengju að vera þarna áfram.
Eru þetta þín húsgögn? spurði Æsa en maðurinn sagði að eigandinn hefði
skilið við þetta svona og að enginn hefði fengist til að fjarlægja búslóðina.
Er hann dáinn? spurði hún og hann sagðist hreinlega ekki vita það. Hann
hefði búið þarna í þrjátíu ár og síðan horfið sporlaust einn daginn. Hinrik
var lögfræðingur systur hans sem lét auglýsa eftir honum og var áberandi í
fjölmiðlafárinu sem fylgdi en svo hafði þessi systir harðneitað að skipta sér
nokkuð af praktískum hliðum málsins. Til dæmis hafði hún aldrei komið
heim til bróður síns og tekið hlutina hans. Allt var þetta mjög undarlegt,
fannst Hinrik
Og þér fyndist sem sagt best ef við byggjum með hlutunum hans án þess
að breyta neinu? spurði Dáni.
Ja, þið getið náttúrulega róterað þessu alveg eins og þið viljið, þannig séð
… bara ekki henda neinu sem virðist hafa eitthvert persónulegt gildi. Málið
er semsagt að það verða að líða sjö ár frá mannshvarfi áður en hægt er að,
já …
Og þú treystir okkur alveg til þess að meta hvað hefur gildi og hvað er
drasl?
Já, þú meinar … Hinrik varð ráðvilltur á svip.
Hvað með smádótið? Eins og fötin og svoleiðis?
Það væri í raun best ef þið kæmuð því öllu fyrir í einu herbergi. Þið þurfið
nú örugglega ekki alla hundraðogfimmtíu fermetrana fyrir ykkur tvö.
Stofan var brúnmáluð. Sófasettið var bútasaumað úr hnausþykku leðri og
allstaðar þar sem voru auðir fletir hafði verið komið fyrir minjagripum,
fílum, strengjabrúðum og míníatúrum af hofum og kastölum.
Eldhúsið var snyrtilegt en á borðinu var diskur með mylsnu og tómur
kaffibolli.
Hvað er langt síðan hann hvarf? spurði Dáni og maðurinn hugsaði sig um.
Kannski ár núna, sagði hann, jú ætli það sé ekki liðið heilt ár.
Er þetta eftir hann? spurði Æsa og benti á diskinn og bollann.