Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Qupperneq 140
D ó m a r u m b æ k u r
140 TMM 2013 · 4
með þau í þorpið, alla leið að pósthús-
inu, snýr hann alltaf við með þau ósend.
Og bréfum sem konan sendir honum
fleygir hann ólesnum á eldinn. Allir
þessir textar hljóta því þau örlög að ná
ekki til lesenda sinna og undirstrika
þannig sambandsleysið við annað fólk.
Auk þess má færa rök fyrir því að bæði
rithöfundurinn og konan séu annað-
hvort horfin úr þessari veröld eða u.þ.b.
að hverfa.
Það er vert að gefa því sérstakan
gaum hvernig hið sífellt dofnandi letur
skáldsögunnar kallast á við andlegt og
líkamlegt ástand rithöfundarins. Eftir
því sem letrið dofnar á blöðunum um
haustið er líkt og náttúran, landslagið
og maðurinn sjálfur dofni með því og
„allt [verður] gráleitt, vegurinn dökk-
grár og votur, hraunið grátt, mosinn
grár, þokan grá á fjallinu. Þegar ég lít í
baksýnisspegilinn sé ég hvað hár mitt
hefur gránað mikið síðasta árið“ (bls.
73). Þegar líður á veturinn hvítnar nátt-
úran samhliða því sem letrið í ritvélinni
hverfur nánast alveg. Samhliða þessu
birtast svartir hrafnar sem halda til í
grennd við bústaðinn, en einkum á þaki
hans, líkt og fullkomnir svartir bókstaf-
ir á hvítu blaði náttúrunnar. Það eina
sem stendur eftir er náttúran og mann-
skepnan er orðin henni framandi, pass-
ar ekki í hana, ekki frekar en texti rit-
höfundarins festist á blaðsíðurnar: „Það
er einsog náttúran sé eitt óskrifað blað,
og þegar ég geng út til að hvíla mig frá
ritvélinni finnst mér einsog fótspor mín
séu framandi letur sem skrifað er á þetta
blað. Ekki á mínu færi að ráða í rittákn-
in, en ég veit að þau þýða eitthvað sem
gæti skipt máli“ (bls. 114).
Að lokum
Spor mannsins í hvítum snjónum eru
líkt og spor bleklausra hamra ritvélar-
innar á hvítum pappírnum. Orðin sem
tilheyra skáldsögunni eru að hverfa í
hvítan pappírinn og þar með fólkið sem
tilheyrir verkinu. Rithöfundurinn
skynjar að hann er framandi í hvítri
náttúrunni og hann veit að spor hans
„þýða eitthvað sem gæti skipt máli.“ Hér
erum við komin aftur á þær pólitísku
slóðir sem áður var vikið að og snúa að
náttúruvernd, manninum í náttúrunni,
sambúð hans við hana og hve mjög
mannskepnan hefur fjarlægst náttúruna
– orðin að framandi letri í henni. Fagur-
fræðileg umfjöllun verksins, sú sem snýr
að sköpunarferlinu og glímu lista-
mannsins, rennur á þennan hátt
áreynslulaust saman við pólitíska þræði
verksins, og það sýnir svo ekki verður
um villst hve þéttofinn merkingarheim-
ur Suðurgluggans er.
Pólitísk afstaða Suðurgluggans vekur
hugrenningartengsl við eitthvað sem
kalla mætti niðurbælt öskur. Slíkt öskur
er veikara en það sem fær fullkomna
útrás. Engu að síður getur áhrifamáttur
þess verið fullt eins mikill. Bælingin
skilar nefnilega ekki aðeins til áheyr-
andans óhæfunni sem framkallar öskrið
heldur einnig ofbeldinu eða uppgjöfinni
sem felst í bælingunni.
Tilvísanir
1 Gyrðir Elíasson: Suðurglugginn, Uppheimar
2012, bls. 12. Hér eftir verður vísað til bókar-
innar með blaðsíðutali í sviga.
2 Gyrðir Elíasson: Sandárbókin: pastoral sónata,
Uppheimar 2007, bls. 17.
3 Hermann Stefánsson: „Myndkveikjur“,
Okkurgulur sandur, ritstj. Magnús Sigurðsson,
Uppheimar 2010, bls. 78.
4 Gyrðir Elíasson, Hér vex enginn sítrónuviður,
Uppheimar 2012, bls. 26–27.
5 Sandárbókin, bls. 86.
6 Sandárbókin, bls. 93.