Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Qupperneq 24
A t l i B o l l a s o n
24 TMM 2014 · 3
þau sveigja til austurs og liggja framhjá kirkjunni, neðan við fiskmarkaðinn,
yfir aðaltorgið og aftur upp hlíðina, skáhallt til austurs, framhjá kvenna-
skólanum og útsýnispallinum, meðfram kirkjugarðinum og kapellu vorrar
frúar í áttina að gömlu lestarstöðinni … en það er einsog þau hafi aldrei náð
þangað, teinarnir enda í miðri götu, þeir hverfa hreinlega einsog fólkið sem
er grafið hinumegin við vegginn undir mosagrónum steinum. Í gær var það
sprelllifandi, maríneraði fisk í tómötum og olíu og stráði ferskum krydd-
jurtum yfir, dreypti á rauðvíni meðan rétturinn var í ofninum; það settist
út á svalir, andaði að sér sumarkvöldinu og dæsti yfir öllum litunum sem
höfðu slest á himininn. Svo enda teinarnir bara, vagninn kemst ekki lengra.
Allir út.
Við vorum komin alla leið að kirkjugarðinum, fjögur saman. Hitinn ætlaði
að kæfa okkur, flugnasuðið var ærandi, og stundum virtust sporin næstum
bráðin í gegnum tíbrána. Trén innan við kirkjugarðsvegginn skýldu okkur
fyrir skæðasta sólarljósinu og máluðu margræða skugga á götuna sem dönsuðu
lítið eitt í golunni. Eitt okkar hafði gripið trjágrein sem lá undir veggnum og
skóf upp úr sporinu milli teinanna með henni. Það var einsog angan aldanna
gysi upp þegar röku grasinu og moldinni og hundaskítnum var rótað upp á
götu í örmjóum, kubbslegum ræmum svo ég fitjaði upp á nefið. Við gengum
sporin allt út á enda þar sem þeim sleppti, ekki langt frá kirkjugarðshliðinu.
Einhver spurði afhverju þau hafi endað hér en það átti enginn svör. Það
var fyrir okkar tíma, í öðrum heimi, fyrir stríð, heil ísöld að baki, vargöld
meiraðsegja og engin leið að skilja það. Hitinn kom illa við Alexander og hann
strauk sér pirraður um úfið hárið. Matthías mundaði trjágreinina og bankaði
henni kæruleysislega við molnað malbikið, annarshugar. Ég góndi niður fyrir
mig, á sporin hverfa undir skóna mína. Hér endar það þá, hugsaði ég: undir
slitnum strigaskóm. María hafði rölt í burtu, lengra niður eftir stígnum og í
áttina að hafinu sem glitraði einsog dansandi silkiþræðir aftan við silúettuna
af henni. Hún var alltaf ýmist rétt á undan okkur eða rétt á eftir, heltekin af
hugsunum sem við myndum eflaust aldrei skilja.
Hún sneri sér við og hvíslaði eitthvað og veifaði okkur að koma. Sjáiði,
hvíslaði hún – og úti við endann á kirkjugarðsveggnum sat maður á bekk og
hvíldi sig í skugganum. Þetta var gamall maður í fallegum en snjáðum ein-
kennisbúningi, dökkbláum einsog hann væri kannski flugþjónn eða starfs-
maður á fínu hóteli. Hnapparnir voru nýpússaðir og gljáðu einsog silfrað
hár mannsins sem hann hafði greitt í nokkra þykka lokka sem náðu aftur á
hnakka. Hann sat með hendur í skauti og horfði fram fyrir sig ögn niður-
lútur einsog hann væri líka að velta teinunum í götunni fyrir sér og þyrfti því
að halla höfðinu fram. Það var ró yfir honum.
– Þetta er gamli sporvagnastjórinn.
– Hvernig veistu?
– Bara. Það vita það allir.
Við staðnæmdumst og stóðum öxl í öxl við hliðina á Maríu og horfðum í