Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Page 31
S p o r
TMM 2014 · 3 31
grófu sig dýpra í það, þetta var kirkjugarður og væntanlega nóg að bíta. Þegar
ég hafði grafið svolitla holu dró ég sporvagninn upp úr vasanum. Hún hafði
gefið mér hann og ég þurfti ekkert að gera í staðinn. Þetta var góð kona. Ég
lagði vagninn í holuna og fyllti svo aftur af sandi og mold og þjappaði vel.
Hér skyldi hann fá að hvíla. Á leiðinni heim reyndi ég að halda mig á spor-
unum í götunni með því að taka bara hænuskref, hæl við tá, tá við hæl. En
myrkrið kom hratt eftir að sólin hvarf í hafið svo ég þurfti brátt að haska mér
og tók til fótanna.
* * *
Við vöknuðum við skröltið. Fyrst var það ofurlágt, einsog vatn í pípu, einhver
að sturta niður í næstu eða þarnæstu íbúð, eða regn sem fellur hinumegin við
fjallið. Það barst lengst ofan úr hlíðinni og endurómaði gegnum strætin og
virtist bara magnast við hvert horn sem það reyndi að fara fyrir. Alls staðar
var bergmál svo hljóðbylgjurnar lögðust hver á aðra og skarkalinn ágerðist
hratt; hljóðið var einsog skriða sem barst niður strætin og hrifsaði til sín öll
önnur hljóð í nóttinni. Öskutunna sem valt á hliðina, breimandi kettir og
spangólandi hundar, hvellir smellir í röku laki á snúru, áldós sem rúllaði á
eftir kittkattbréfi í vindinum: öll soguðust þau inn í skröltið sem ómaði nú
einsog vaxandi þruma ofan við bæinn.
Ljós tóku að kvikna í gluggum bæjarins. Birtan streymdi röndótt útum
gluggahlerana um stund áður en þeir opnuðust og við gægðumst út eitt af
öðru. Gnýrinn kom augljóslega utan úr nóttinni og hann jókst bara. Sem
meira var, þá var einsog hljóðinu fylgdi ljós. Einhversstaðar í hlíðinni birtist
bjarmi og efstu húsin í bænum voru brátt böðuð flöktandi ljósi. Í tungllausri
nóttinni var meiraðsegja lítið mál að greina einn og einn neista. Þetta var bál
og það færðist nær. Nú fundum við reykjarlyktina, daufa angan sem minnti
á endalausa daga á ströndinni þegar teygt er úr deginum með því að kveikja
í spreki.
Og þarna kom sporvagn niður götuna í ljósum logum. Hjólin sátu þung í
sporunum og ruddu frá sér drasli liðinna áratuga. Vagninn var alelda og ekki
var að sjá að neinn væri við stýrið. Við þustum út á götu þar sem höfðu þegar
safnast fyrir silkiklæddir afar með nátthúfur og bleyjuklædd börn sem grétu
í örmum mæðra sinna. Krakkar með rauðgul andlit hlupu með vagninum
þar sem hann geystist niður strætin og reyndu að yfirgnæfa alltumlykjandi
gnýinn með barnslegum hrópum sínum. Loks hægði vagninn ferðina og
staðnæmdist á torginu, ekki langt frá skiptistöðinni. Hann logaði þar einsog
varðeldur og varpaði bjarma og risavöxnum dansandi skuggum á kirkjuna
og pósthúsið og marmarasúlur bankans. Eldurinn speglaðist daufur í
gljáðum hellusteinunum og sporin sem lágu þvers og kruss um torgið glóðu
einsog brennheitir vírar í svartri nóttinni.