Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Side 93
Þ r j á r s ö g u r
TMM 2014 · 3 93
hlýtur að vera hann. Hann hringir á lögregluna sem fellst á að koma og
athuga málið. Þeir ganga inn í verslunina en koma fljótt út aftur, óræðir á
svip. „Hann virtist kunnuglegur, var það málið?“ Maðurinn les veðurfréttir
í sjónvarpinu. Lengra nær það ekki.
Stundum leiftrar ljós. Myndbrot. Það er hús. Það er bók. Það er auglýsing.
Það er fólk og staðir. Það eru tilfinningar sem segja ekkert og of mikið.
„Hérna?“ „Afi og amma. Manstu, þau bjuggu í kjallaranum?“ Nei. „Er
þetta …“ „Ég veit ekki. Spurðu mömmu.“ Enginn veit. „Var engin kærasta?
Aldrei?“ „Nei, það held ég ekki. Ekki sem við vissum af að minnsta kosti.“
Af hverju ekki? Var hann svona leiðinlegur? Hann var ekki ljótur. Ekki þá.
Núna hins vegar … Samt líður honum alltaf eins og eitthvað vanti. Eitt-
hvað eða kannski einhvern? Það er tómarúm í dimmu herbergi, innst inni í
honum.
„Hvenær dó pabbi?“ Hún lítur á hann forviða. „Dó? Hver segir að hann
sé dáinn? Hann er bara fyrir norðan eins og alltaf. Akureyri?“ Hann hristir
höfuðið, man ekkert. Langar að spyrja af hverju enginn hafi minnst á mann-
inn. Af hverju faðir hans hafi ekki haft samband eftir árásina. Segir ekkert.
„Vertu bara feginn að hafa gleymt honum. Það er hvort eð er ekkert til að
muna,“ hnussar hún bitur. Hann horfir á hana. Hún er systir hans en hann
finnur engin tengsl. Þegar hann hugsar um æsku þeirra fær hann bara hnút
í magann. Ekkert til að muna. Ertu viss?
„Heyrðu, þekki ég þig ekki?“ segir einhver og hann snýr sér við. Stúlka
horfir á hann hikandi, brosir svo. „Jú, ég sver það. Við vorum saman í skóla.“
Hann langar að spyrja: „Saman eða saman?“ Segir þess í stað: „Fyrirgefðu. Ég
man aldrei neitt. Hvað heitirðu aftur?“ Hún hlær. „Ásta. Ásta Helgadóttir?
Við vorum í sama árgangi í gaggó. Ekkert? Nei, það er ekki von. Ég var svo
feimin og þú … Æ, þú veist.“ Hún brosir og hann langar til að hrista hana.
„Nei, hvað?“ „Æ bara, svo dulur. Þessi þögla, djúpa týpa, alltaf einn.“ Það
segir honum akkúrat ekki neitt.
Síminn hringir um miðja nótt. Það er drafandi rödd, drukkin. Hann
situr stjarfur í rúminu og hlustar á raus um einmanaleika og kaldar nætur
og hversu góður hann var, hversu þægur og vænn og góður, góður drengur.
Það átti ekki að gerast – aldrei, aldrei – en mamma hans var aldrei heima,
andskotans kellingin alltaf á vöktum. „Elsku drengurinn minn.“ Þetta var
bara stutt ferð suður, viðskiptaferð. Vissi auðvitað betur, en hvaða líkur voru
á að þeir gengju svona í flasið hvor á öðrum? „Ef þú hefðir bara ekki orðið
svona reiður.“ Hann hendir símanum frá sér. Nær ekki klósettinu fyrir fyrstu
gusuna.
Móðir hans þykist ekkert vita. Neitar að tala um það. Stendur upp og
gengur út úr eldhúsinu. Systir hans situr kyrr við eldhúsborðið, starir í
gaupnir sér. Segir loks: „Þú manst ekkert lengur. Þú fékkst að gleyma. Veistu
hvað þú ert heppinn? Af hverju geturðu ekki bara þakkað fyrir og hætt að
tala um þetta?“ Hún brestur í grát og hann veit ekki hvað hann á að segja.