Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 9
TMM 2017 · 4 9
Kristín Ómarsdóttir
Hnefi beitir heiðarlegra ofbeldi
Viðtal við Kristínu Eiríksdóttur rithöfund
Kristín Eiríksdóttir opnar dyr. Svo opnar hún aðrar dyr. Svo aðrar dyr. Svo
aðrar dyr. Í dyragættinni opnar hún aðrar dyr og lokar mann inni. Svo gerist
eitthvað. Svo hleypir hún manni út – úr Kjötbænum á baki jaxuxa. Þannig
má lýsa áhrifunum sem bækur hennar geta veitt manni.
Um tvítugt skrifaði Kristín fyrstu ljóðabókina, ímyndunaraflið kröftugt,
myndheimurinn ríkur og ískyggilegur, brútal, kreisí, vingjarnlegur og ein-
semdarlegur. Fyrstu bækurnar hennar eru sannkallaðar ljóðabombur, gos. Í
fyrsta smásagnasafninu stýrir hún veðrunum öðruvísi – ég veit ekki hvort
ætti að segja: jarðbundnar; yfirvegað, stælt. Kristín á jafn létt með að skrifa
ljóð, leikrit og skáldsögur. Í haust kemur önnur skáldsaga Kristínar út Elín,
ýmislegt. Í vetur frumflytur Útvarpsleikhúsið leikritið Fákafen.
Kristín er menntuð í myndlist. Ljóðabækurnar sem út hafa komið hefur
hún myndskreytt svo að teikningin rennur saman við orðin og öfugt og má
fullyrða nær fullkomlega í yngstu ljóðabókinni Kok (2014) sem að mínu viti
er einnig e.k. tónverk.
Ég held að Kristín sé líka e.k. forsprakki kynslóðar – kynslóða – og veit þó
ekkert um það nema að ég hef tekið eftir og heyrt að lesendum þykir hún tala
fyrir sína hönd, tjá sig, sitt og sína (sýna). Ég þekki ekki sögu Nýhils og upp-
hafstíma yngri og yngstu skáldanna, best ég spyrji hana líka útí ljóðatímann
við upphaf þriðja árþúsundsins hérna í garðinum.
Við sitjum undir styttu Jónasar Hallgrímssonar – hvar annars staðar
í Reykjavík? Það er hlýr sumardagur, grasið er grænt, ég kom með teppi,
Kristín með tvö mál ís-kaffi.
***
Takk fyrir að koma í viðtal við mig fyrir Tímarit Máls og menningar
Kristín Eiríksdóttir. Viltu segja mér hvar þú ert fædd og hvenær, hvað for-
eldrar þínir heita, áttu systkini, hvað heita þau – ef þú kærir þig um að svara
því – og hvar í röðinni ertu fædd og hvar ólstu upp?
Ég heiti Kristín Eiríksdóttir og er fædd í Reykjavík 3. nóvember 1981.
Mamma mín hét Ingibjörg Haraldsdóttir og pabbi minn heitir Eiríkur Guð-