Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 108
J ó n S i g u r ð s s o n
108 TMM 2017 · 4
Bjarti og fjölskyldunni þetta kot eftir (H 2011:695–696). Minning gömlu
konunnar segir sitt: „Það voru falleg sólarlögin á Urðarseli“ (H s.st.). Skáldið
tekur nafn bæjarins ekki af handahófi. Annars vegar er urð stórgrýti og
skriður, en hins vegar var Urður í fornum sið örlaganorn liðinna tíða, tákn-
mynd og dularvald fortíðarinnar.
Bjarti þykja nágrannar hans litlir fyrir sér: „Enda held ég mann muni ekki
mikið um að eiga heima í moldarkofa … Það væri eitthvað annað ef maður
hefði sál og væri eilífur. Þá fyrst væri eitthvert vit í að reyna að koma sér upp
húsi. … Æ farið þið til andskotans með alla ykkar sálarskotu“ (H 2011:698).
Enn er Bjartur harður af sér og skáldinu liggur enn sitthvað á hjarta um
trúmál í hörðum heimi. Hér er hugsun frá róttækustu menntamönnum á
þessum tíma, að spyrja hvort til séu sál og eilífð, allt í einu slengt inn í sögu-
þráðinn, án nokkurra tengsla, eins og eftirþanka höfundar sem vill fleygja
einhverju sterku fram.
Njörður P. Njarðvík hefur athugað samfélags- og stjórnmálavídd verksins
sérstaklega. Hann segir: „Öll barátta Bjarts í Sumarhúsum stríðir gegn
mannlegri skynsemi“ (Njörður 1973:144). Í verkinu slær hugsunarhætti
smábóndans saman við nýjar samfélagsaðstæður sem birtast í stéttaátökum
í þorpinu. Smábóndinn kynnist verkfallsmönnum og fer að draga ýmislegt í
efa sem áður var ótvírætt: „… annaðhvort voru yfirvöldin réttvísi og þessir
menn glæpamenn, eða þessir menn voru réttvísin og yfirvöldin glæpamenn.
Það var ekki auðráðið fram úr þessu …“ (H 2011:714). Og það reynir á grunn-
hugmyndir Bjarts um eigin heiðarleika með „hinu þjófstolna brauði“ sem
hann leggur sér til munns (H 2011:710–714). Bjartur finnur til samkenndar
með verkfallsmönnum og til samúðar með þeim sem jafningjum og félögum,
þrátt fyrir allt, og skilur son sinn eftir í liði þeirra (H 2011:721).
En þegar hugað er að vilja Bjarts til að halda heiðahokrinu áfram, verður
að hafa í huga að á þessum tíma þekktu menn ekki hagvöxt, framfarir
og lífskjaraþróun sem löngu síðar varð. Það virðist gleymt á nýrri öld að
kotungarnir og hjúin vissu af sárri reynslu hver munur var á leiguliða og
eiganda. Þessu fólki þurfti ekki að kenna neitt um fardaga, útbyggingu,
afgjöld, kúgildi, hreppaflutninga. Árin liðu yfir sveitafólkið með veður-
fari og hagsveiflum, stundum betur og stundum verr, og líf verkafólks í
bæjunum var ekki skárra. Einyrkjastefna í sveitum án véla og rafmagns er
horfin, en einyrkinn lifir áfram í mörgum tilbrigðum. Og rómantísk oftrú,
afturhvarfsþrá, einyrkjahugur og frumstæðishyggja breytast og koma aftur
í nýjum myndum, eins og annað það sem finnur bergmál í hugskoti manna.
Á tíma Sjálfstæðs fólks vissu menn engin traustari úrræði fyrir fátæklinga
þegar að herti en einmitt hokur á koti og skak við ströndina. Úrræði manna á
Íslandi á þessum tíma, líka þeirra sem voru í forystu verkalýðssamtaka, voru
í þeim anda enda afkomuöryggi í kaupstöðum og þorpum brigðult (Ólafur
1988). Vilji fátæks fólks til sjálfræðis, frelsisþrá þess og sjálfsábúðarstefna