Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 15
H n e f i b e i t i r h e i ð a r l e g r a o f b e l d i
TMM 2017 · 4 15
Hafa foreldrar þínir haft áhrif á bækurnar þínar og leikrit og verk?
Nei nei, alls ekki. Það eru alls konar trikk sem maður notar til að geta
skrifað og eitt af því er að kötta á milli raunveruleikans og skáldskaparins.
Þannig hugsa ég sem minnst um hvernig raunverulegir atburðir rata inn í
hvað sem ég skrifa. Skoðaði ég það og velti mér uppúr því reisti ég mér höft.
Eftir á verð ég oft vör við áhrifin og jafnvel líkindi við raunveruleikann – en
það er samt ekki – samt raunverulega ekki – og eitthvað allt annað – en þú
ert kannski ekki að spyrja mig um þetta?
Nei, en þetta er frábært svar. Ég get ekki nákvæmlega útskýrt spurninguna
sem ég spyr ekki af einkalegum og persónulegum ástæðum heldur vegna
forvitni um hverju fólk kynni að svara spurningu einsog þessari.
Sumt af því sem ég skrifa finnst mér ég ekkert endilega sjálf skrifa. Það er
kannski ýkt að segja að mér finnist ég ekki hafa skrifað ákveðinn texta en
það er að minnsta kosti satt og engar ýkjur að ég ræð ekki hvernig textinn
verður, ekki frekar en ég ræð draumunum og öðru sem rekur ættir sínar til
dulvitundarinnar – og að ég hafi einhverja stjórn er blekking. Ég tek ekki
fagurfræðilegar ákvarðanir í dulvitundinni. Ég ímynda mér eitthvað – mér
ímyndast eitthvað – og þarna er frelsi sem ég hef ekki stjórn á. Ef eitthvað
kemur óheppilegt inn þvæ ég hendur mínar af því.
En svo ég svari spurningunni, þá hafa foreldrar mínir auðvitað haft mest
áhrif á mig af öllu. Mamma hvatti mig alltaf til dáða, oft þvert á alla skynsemi
og því á ég allt að þakka. Ljóðin hennar höfðu líka mikil áhrif á mig. Áhrifa-
mesta lesning lífs míns var þegar ég ungur unglingur las allar ljóðabækurnar
hennar í einni atrennu. Listin er alltaf bara partur af raunveruleikanum og í
henni búa skýringar sem við finnum ekki annars staðar.
Takk fyrir þetta svar sem gleður mig. Ég ætla ekki að spyrja þig um áhrifa-
valda en áttu bók, bækur sem þú grípur alltaf í, sem þú tækir með á eyði-
eyju?
Myndi náttúrulega vilja fara með eitthvað mjög langt sem ég er ekki búin
að lesa.
Þannig að þú veist ekki hvað þú færir með.
Kannski Jósef og bræður hans, hún er löng og ég á hana eftir, ég er líka svo
hrifin af Tómasi Mann.
***
Ertu gift?
Nei, ég er ekki gift, ég hef aldrei gifst.