Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 87
Á l e i ð i s a ð U r ð a r s e l i
TMM 2017 · 4 87
un. Það skiptast á skin og skúrir, en Bjartur fær líka að njóta góðra ára og
getur þá byggt upp og stækkað við sig. En kotajaðrarnir eru þó enn fyrst og
fremst sjálfsnægtabúskapur, frumvinnslusamfélag og fátækt með harkalegu
erfiði. Og kotungarnir höfðu enga varasjóði að reiða sig á þegar herti að.
Margir íslenskir bændur höfðu stofnað til jarðakaupa og annarra bjartsýnis-
skulda og urðu fyrir áföllum þegar kreppa með verðfalli reið yfir eftir fyrri
heimsstyrjöldina (H 2011:676). Alþýðuheimilin voru alltaf háð veðurfari og
árferði en nú fylgdu nýjar áhættur viðskiptakerfinu, markaðssveiflur, ótryggt
verðlag á afurðum, en öryggislaus launavinna eða örbirgð atvinnuleysis beið
þeirra sem fluttust úr sveitinni.
Í verkinu kemur fram að bændur eiga alls ekki allir sömu hagsmuni. Eitt
er staða leppsins, sem áður er nefnd, andspænis stórbóndanum. Annað er
sambærileg mismunun á flestum eða öllum sviðum. Í sveitasamfélaginu eru
stórbændur og búhöldar, og þar eru fátækir kotungar sem lítils mega sín.
Hvað sem líður fögrum hugsjónum um sveitalífið, sýna viðtökur verksins
allt frá frumdreifingu þess að það vakti enduróma í hugum margra. Þetta var
samfélags- og mannlífslýsing sem margir virtust kannast við.
Lýsingar í Sjálfstæðu fólki á örbirgð og fásinni birtast lesendum á 21. öld
sem miklu ótrúlegri öfgar en var þegar verkið kom fyrst út. Á öðrum áratug
20. aldar var ungbarnadauði á Íslandi um 8% og hafði þá minnkað næstu
árin áður (Guðmundur 1997:163, 189). Og allar íslenskar fjölskyldur þekktu
berklana, „hvíta dauða“, langt fram eftir öldinni. Margir könnuðust við
lýsingar Ólafar frá Hlöðum (1857–1933) á bernskuheimili sínu á Vatnsnesi
um fjörutíu árum fyrr (Ólöf 1906), og margir höfðu frá svipuðu að segja frá
æskudögum. Halldór hafði áður minnst á „hið gamla viðlag um húsakynni
íslenskrar alþýðu, hve svívirðileg þau eru“ (H 1929, 1956:81). Margir lesendur
verksins við frumútgáfu þess hafa vel skilið undrun Bjarts þegar Rósa vill fá
kjöt „á miðju sumri“ (H 2011:59).
Halldór Kiljan Laxness fylgdist með fregnum af byltingarríkinu unga í
Rússlandi, þekktist boð þangað, afsakaði stjórnvöld austur þar af ákefð og
kynnti sér viðhorf þeirra til landbúnaðar. Snemma á þriðja áratugnum hafði
nýjum stjórnvöldum í Ráðstjórnarríkjunum hentað að losa um tök sín til
sveita og þá varð þar brátt til öflug bændastétt. Rúmum áratug síðar fundu
stjórnarvöldin að þessi unga stétt stóð á eigin fótum og það var óþolandi í
augum herranna í Kreml. Blóðug átök hófust á ný og þeim var ekki lokið
þegar nasistaherirnir réðust austur í Rússland. Skelfingarnar og hrottaskap-
urinn sem einkenndu upphaf samyrkjubúskaparins í Ráðstjórnarríkjunum
voru með eindæmum, eins og alkunna er.
Efling sjálfstæðrar stéttar sjálfseignarbænda var alþjóðleg viðleitni á fyrstu
áratugum 20. aldarinnar. Dæmi um hana má nefna frá mörgum löndum,
Danmörku nokkru áður og Norður-Ameríku, frá Mexikó, Írlandi, Rúss-
landi á fyrstu árum aldarinnar og aftur á þriðja áratugnum, Íslandi og fleiri
löndum (Jón 2013:224). En Halldór sér fátæka kotbóndann í samfélagsljósi