Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 91
Á l e i ð i s a ð U r ð a r s e l i
TMM 2017 · 4 91
Eins vekur athygli að samskipti við hálfþroskaðar stúlkur skipta miklu á ferli
beggja þeirra Bjarts og Ólafs Kárasonar, hvors með sínum hætti.
Trúlega er Jón stórbóndi og hreppstjóri á Úti-Rauðsmýri sá maður í
verkinu sem hægt er að segja um að spegli Bjart einna best. Hvor andspænis
öðrum speglar drætti hins og móthverfar andstæður. Þeir hugsa svipað
hvor öðrum og samtöl þeirra eru stórkostleg. Í ljós kemur að þeir miða við
svipaðar mælistikur um mannlífið og hafa áþekkt gildismat báðir. Öðrum
þræði lítur Jón niður á hjúið en um leið finnur hann til andlegs skyldleika
með Bjarti. Einstök er sú einkunn sem viðmóti Jóns er gefin: „Þessi sérgóði
meðaumkunartónn, sem skilyrðislaust setti aðra menn á bekk með brjóstum-
kennanlegu úrhraki án þess að vera þó nokkurntíma beinlínis meiðandi …“
(H 2011:164).
Samhliða róttækri samhyggju vekur athygli í verkinu hversu djúptæk og
skörp einstaklingsafstaða kemur þar fram og hve mögnuð og skörp ein-
staklingseinkenni birtast. Í verkinu birtast meðal annars fljótfærni, bráð-
lyndi og þrjóska, misheppni og mistök, þrákelkni og óstýrilæti í mörgum
myndum, og einmitt þvert andstætt hagrænum áhrifum, samfélagsstöðu
eða hagsmunum.
Hér sker Bjartur sig auðvitað úr. En afstaða Bjarts er flókin. Hugsunar-
háttur hans sundrar skilgreiningum. Á ytra borði er hann hortugur, hrjúfur,
grófyrtur og viðskotaillur. En undir sögulok birtist hlý samkennd hans og
endurómar fyrri atvik í verkinu: „Hann virti fyrir sér úngbarn hennar sem
svaf, það var nú einusinni svo, að í hvert skifti sem Bjartur sá lifandi úng-
barn, þá fyltist hann vorkunnlæti, – skelfíng sem þetta er lítilfjörlegt, sagði
hann. Já mannkynið er aumt þegar maður lítur á það einsog það er í raun og
veru“ (H 2011:720).
Samskipti hans við Ástu Sóllilju eru áhrifamikil. Halldór Guðmundsson
segir: „Ástarsaga þeirra er ótrúlega vel sögð; hún er lágvært stef í annars
háværri hljómkviðu verksins“ (H 1996:76). Séra Gunnar Kristjánsson kallar
tengsl þeirra „eins konar líftaug sögunnar“ (Gunnar 2002:75). Samskipti
þeirra, og áhrif þeirra hvors á hitt, eru söguþráður sem gengur um allt verkið,
þögul en hlý undiralda djúpra mennskra kennda. Og þessar kenndir bregða
ljósi yfir þau bæði og þó sérstaklega yfir Bjart, ljósi sem sýnir aðra drætti í
skapgerð hans en hörkuna sem ríkir á yfirborðinu. Á bak við hörkulega ytri
sýnd eru hlýja og fegurð inni fyrir, læstar, faldar og niðurbældar báðum þeim
til harms og skaða.
Bjartur er ævinlega of bráður, of harðorður, hefur ekki stjórn á sjálfræðis-
viðbragði sínu, að slá alltaf frá sér strax eins og til að komast sjálfur undan
einhverju höggi – jafnvel innan frá. Hann er endalaust að setja upp skrápinn
og urra þegar hann vildi gefa önnur hljóð frá sér. Það er eins og hann beri
bernskureynslu sem kennir honum að varast að opna sig. Og Ásta vex og
þroskast til að geta tekið á móti.
Ásamt samhyggju og samfélagslegri vitsmunastefnu sem vakir yfir ytra