Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 94
J ó n S i g u r ð s s o n
94 TMM 2017 · 4
eins og tinnu til að kveikja neista. Og það er einn tindurinn í „kiljanskri
snilli“ að jafna ekki slíkar mótsetningar, að leysa ekki úr þessu átaki, heldur
sýna það sem lífrænan iðandi þátt í sálarlífi mannveru.
VII
Annað sem vekur eftirtekt er afstaða Bjarts til trúmála og þekking hans á
þeim. Hér er vinnumaður á afskekktu koti sem hefur á hraðbergi frumlegar
yfirlýsingar um þessi mál, en segist að öðru leyti fornrar rímnatrúar og
„þótti helst varið í þá sem trúðu á mátt sinn og megin“ (H 2011:32). En sum
ummæli hans lýsa þekkingu sem virðist komin frá höfundi Vefarans mikla
frá Kasmír, fremur en fyrirmyndum, kennurum eða bóklestri fyrr á ævi
Bjarts sjálfs. Þetta kemur á óvart í þessum aðstæðum, en samt er frásögu-
snilld höfundarins slík að í lestri verksins birtast þessar yfirlýsingar Bjarts
eins og sjálfsagt mál.
Bjartur setur ljós sitt ekki undir mæliker, frekar en endranær. Sumt er
skemmtilegt, svo sem að trú sé óþarfi „fyrst maður trúir ekki á fjandann“ (H
2011:50). Í fyrsta hluta verksins ræðast gangnamenn við. Einn þeirra hefur
lesið á bók um gang sólarinnar. Hann nefnir að í Biblíunni segir að sólin hafi
staðið kyrr. Um þetta segir þá Bjartur: „Láttu ekki nokkurn lifandi mann
heyra að þú takir þetta trúanlegt. Maður skyldi vara sig á því að trúa því sem
maður les í bókum. Aldrei lít ég á bækur sem sannleika, allra síst biflíuna,
því það er einginn kominn til að hafa hemil á því sem stendur í bókum. Þeir
geta logið hverju sem þeir vilja, að minsta kosti í þá sem ekki hafa verið á
staðnum“. Þá er vísað til þess „að Jesús Kristur hafi risið upp á sunnudags-
morgni …. Ekki veit ég það, sagði Bjartur þá, hvenær hann kann að hafa risið
upp; eða hver var til staðar að votta það? Eitthvert kvenfólk, vænti ég, það
er mikið að marka hjartveikina í kvenfólkinu, eða hitt heldur“ (H 2011:99).
Hér leikur skáldið sér að því að hafa óráðið hvort Bjartur er aðeins að tala
um tímasetningu, eða um Biblíuna, eða um upprisuna sjálfa; – eða aðallega
að tjá sig um vitsmuni, þarfir og heilsufar kvenna. Skáldið er í og með að
hnippa í lesandann, setja hann um koll af hlátri og hneyksla hann í leiðinni
sér til gamans. Halldór notar sjálfur löngu síðar orðið „prakkaranáttúra“ af
alltöðru tilefni (Ólafur 2007:40).
Á ritunartíma verksins stóðu miklar deilur um svonefnda „frjálslynda“
guðfræði. Orð Bjarts um heimildir fyrir efni bóka má túlka sem tilvísun til
kröfu „nýju“ guðfræðinnar um lesmálsrýni (Textkritik). Og Bjartur kemur
áliti sínu rækilega að um dómgreind og vitnisbærni kvenna. Hann er hér
sammála stjórnvaldi og fræðimönnum í Palestínu á dögum upprisunnar. Að
öðru leyti lýsir hann andstöðu gegn því hvernig höfðingjar beita kristnum
kenningum.
En hér tekur Halldór upp upphafsorð Alþýðubókarinnar, gamalkunn úr
kristnisögu Evrópu: „Menn skyldu varast að halda að þeir viti nú alla skapaða