Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 47
X x x
TMM 2017 · 4 47
Á heimleiðinni getur Janus ekki stillt sig um að minnast á það við mig hvað
við systurnar eru ólíkar, en um leið rennur upp fyrir honum að hann gæti
hafa sært mig með þessum samanburði.
Ég meina þú svo hæglát og hún svona mannblendin, flýtir hann sér að bæta
við og gjóar augunum til mín, athugar hvernig ég bregst við.
En ég er vön þessu. Þetta hefur alltaf verið svona og ég reyni að útskýra
það fyrir Janusi.
Ég veit að við erum ekki líkar en ég er ekki afbrýðisöm þó hún sé svona
glæsileg. Þú ættir bara að vita hvað það var oft gaman heima hjá okkur þegar
Lilja bjó heima. Meira að segja mamma hló stundum.
Ég saknaði systur minnar hræðilega þetta ár sem hún var í Reykjavík, hélt
ég myndi deyja. Þó vissi ég að hún kæmi aftur. Já, auðvitað kom hún aftur.
Og ég get ekki stillt mig um að brosa. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem ég
brosi til bróður míns sem horfir alvarlegur, næstum skelfdur á mig.
Þú skilur, segi ég, Lilja getur aldrei farið frá okkur.
Brosið er fast á vörunum, ég næ því ekki af.
Það er alla vega hlýtt innan um útsaumuðu karlana sem prýða stofuna okkar
mömmu og heima bíður líka kjötsúpan frá í gær, þykk og bragðmikil, full af
gulrótum, kryddi og káli. Mamma eldar góða kjötsúpu, okkur hitnar og ég
byrja strax að svitna. Eftir matinn setjumst við í stofuna.
Nýr maður er að verða til á jómfrúarhvítum strammanum og við Janus
fylgjumst með hreyfingum handarinnar sem stjórnar nálinni. Ekkert annað
hreyfist á staðnum.
Janusi bregður þegar hann kannast við augnsvipinn á myndinni og
smeykur fikrar hann sig nær til að skoða saumaskapinn, þar sem löng
brún augnhár eru að myndast hvert af öðru við fölan vanga. Hann rýnir í
strammann og ég horfi á vangasvipinn, sé bláa æð í gagnauganu tifa í takt
við nálina sem borast inn í augnlokið og skilur eftir krossa sem eiga fyrir
höndum að safna ryki hér hjá okkur.
Liggur þér nokkuð á Janus minn? spyr mamma án þess að líta upp. Þú ert
velkominn hér.
Ég tek rútuna á morgun, segir Janus og fer upp í gamla herbergið hennar
Lilju.
Daginn eftir er vorið liðið. Skáldið veit hvað það syngur því það er aftur
kominn vetur þegar við systkinin kveðjumst með köldu og lausu handabandi.
Janus er svo kaldur á höndunum að þurr snjókornin sem fjúka í kringum
okkur bráðna ekki einu sinni þegar þau lenda á handarbakinu.
En bróðir minn er kátur þegar hann lyftir handleggnum og veifar út um
glugga rútunnar. Í augnablik kippist hann við þegar tekur í saumanna á
handleggnum en svo ypptir hann bara öxlum og hlær glaðlega.
Þetta smásár er að verða gróið.