Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Blaðsíða 41
TMM 2017 · 4 41
Steinunn G. Helgadóttir
Xxx
Janus hrasar þegar hann staulast niður úr rútunni. Um leið og ég tek fyrsta
skrefið í áttina til hans liggur hann flatur í stæðinu og vonar að enginn hafi
tekið eftir þessu, sem er auðvitað vonlaust.
Hjálpsamar hendur og forvitin augu umkringja bróður minn þegar hann
stendur skömmustulegur upp og reynir að bera sig karlmannlega. Svo
athugar hann hvort myndavél sem hangir um hálsinn á honum sé ekki örugg-
lega í lagi og léttir greinlega þegar hann kemst að raun um að svo er.
Ég rétti fram höndina, ætla að heilsa, en einmitt þá rekur Janus augun í
stækkandi blóðblett sem leitar upp jakkaermina og uppgötvar djúpan skurð
ofan á framhandleggnum. Það verður heilmikið uppistand og fólk raðar sér
í kringum hann.
Það þarf augljóslega að sauma þetta, segir bakari bæjarins sem einnig var
farþegi í rútunni og býðst til að skutla Janusi á heilsugæslustöðina en ég læt
mig hverfa. Ég er góð í því. Janus er líka með heimilisfangið mitt, hann getur
komið sér þangað sjálfur.
Loftið er rakt og svalt og mér finnst það hressandi þó öðrum sé kalt. Mér
er alltaf heitt og ég hneppi kápunni frá mér á meðan ég staldra við á brúnni.
Áin sem rennur í gegnum bæinn skiptir honum í tvennt. Sitt hvoru megin
við hana hjúfra húsin sig saman í litlar jafnaldraþyrpingar sem minna á
matadorhús með einu og einu hóteli.
Í einu húsinu búum við mamma.
Samtal okkar Janusar var stutt. Nýi grái síminn gefur frá sér andstyggilegt
hátíðnihljóð sem mamma segir að ég ímyndi mér og ég forðast hann.
Janus virðist ekki sólginn í langar samræður heldur, þó hann hafi eitthvað
imprað á fleiri systkinum sem hann ætlar að finna. Hann um það, mér er
sama. Systir mín, Lilja, nægir mér og helst hefði ég viljað vera laus við þessa
heimsókn.
Það eru ekki margir á ferli fremur en venjulega, nokkrir bílar aka framhjá en
enginn hægir á sér þó flestir kannist við mig.
Ég er stolt af húsinu okkar. Þetta er fallega tjargað timburhús, hæð og ris
og þegar ég var barn fannst mér það dularfullt og notalega hættulegt eins og