Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Page 18
18
unum, úr sögunni, ef fleiru en einu getur undið fram í
hverju einstöku tilfelli. Einnig mætti segja, að kenning
þessi styddi að vissu leyti sjálfræðiskenninguna, þar sem
eiga mætti von á og þá líka völ á öðru en því, sem líkleg-
ast þykir. En fríhyggjuna eða staðhæfinguna um algert
orsakaleysi styður hún alls ekki, þegar af þeirri ástæðu,
að hin nýrri eðlisfræði gerir jafnan ráð fyrir útlausn á-
kveðinna orkuskammta, ef einhver breyting frá því sem
var á að geta átt sér stað. En þótt rafeind sé um nokkurt
skeið eins og á hvörfum, þá rekur jafnan að því, að hún
beinist frekar í eina átt en aðra, og upp frá því er or-
sakarásin, hvað þeirri eind við kemur, ákveðin, þótt hinn
endanlegi árangur verði ekki séður eða sagður fyrir í
hverju einstöku tilfelli. Því eiga fríviljasinnar hér engum
sigri að fagna. Heimurinn er aðeins orðinn óbundnari í
rás sinni en hann áður virtist vera, því að gera má ráð
fyrir fleirum en einum möguleika í hvert sinn. Veltur oft
á litlu, hverju fram vindur, þar sem ein lítil smæð eins
og rafeindin er á hvörfum og getur svo að segja brugðið
til beggja skauta. Af þessu getur leitt fleiri framtíðar- og
þá ef til vill líka fleiri framfara-möguleika, því að orsaka-
rásin sjálf er orðin mun sveigjanlegri en menn áður héldu.
Er í raun réttri mikils um það vert, að hin einstrengings-
lega nauðhyggja skuli vera um það bil að hverfa úr sög-
unni og það meira að segja í sjálfri eðlisfræðinni, sem í
þessu tilliti var áður einna ströngust allra vísinda í kröf-
um sínum um fast og ósveigjanlegt orsakasamhengi.
IV. SAMHVERF OG FRÁHVERF FYRIRBÆRI.
Hin nýrri eðlisfræði gerir ekki einungis ráð fyrir mun
sveigjanlegra orsakasamhengi en menn áður hugðu, að
gæti átt sér stað. Hún gerir líka ráð fyrir því, sem nefnt
hefir verið „hending" og „tilviljun", þó ekki að orsaka-
lausu, heldur þannig, að eilítið frávik frá því venjulega
geti átt sér stað og þó haft hin stórfelldustu eftirköst í för
með sér, eða m. ö. o., að engin regla sé án undantekningar.
Skal nú vikið að því nánar.