Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Side 41
41
álögur beint eða óbeint eftir geðþótta þjóðhöfðingjanna,
og var þar einatt um hreint handahóf að ræða.
Fleiri rök hnigu undir öldu hins nýja tíma. Hið full-
komna öryggisleysi þegnanna í persónulegum efnum var
einn ríkasti þáttur í óánægju almennings. Um trúarbrögð
og guðsdýrkun vildi kirkjan ein öllu ráða. Refsilög voru
sundurleit og slitrótt, þannig að innan sama ríkis gilti
fjöldi laga, sem voru í fullu ósamræmi hver við önnur.
Dómstólarnir voru fyrst og fremst þjónar konunganna,
og dómsúrskurðum réð því margoft hreint handahóf, en
ekki réttur. Altítt var, að menn væri sviptir frelsi, án
þess að mál þeirra væri nokkurn tíma rannsökuð eða
dæmd. Oft létu yfirvöldin greipar sópa um eignir manna.
Líf og velferð manna héngu í svo lausum þræði, að nærri
stappaði fullu réttleysi.
Fræðimenn þessara tíma deildu hart á valdhafana og
óstjórnina. Sóttu þeir ádeilurök sín mjög til kenningar-
innar um náttúrlegan rétt þegnanna, er ekki yrði frá
þeim tekinn. Grundvöll ríkisins töldu. þeir vera samning
einstaklinga sín á milli, er lagt hefði höft á frelsi sitt gegn
því, að grundvallarréttindi þeirra væri varin og virt. Á
þennan hátt var upphaf ríkisvaldsins rakið til þegnanna
sjálfra og vígorð byltinganna varð meðal annars: „Allt
vald í hendur fólksins“. Kenningin um, að ríkisvaldið
skapaðist af samningi þegnanna, er að vísu ekki viður-
kennd í lögfræðinni nú, en á tímum byltinganna, er að
framan getur, var hún ofarlega á baugi og upphaf lýð-
ræðisskipulagsins að ýmsu leyti mótað af henni.
Vegna þess, hve mikil áherzla var lögð á óglatanleg,
persónuleg mannréttindi og áhrifarétt þegnanna á stjórn-
arfarið, voru ákvæði um þau lögfest í sumum stjórnlög-
um, er nú voru sett eða þá, að sérstakar yfirlýsingar um
mannréttindi voru samþykktar á þjóðfundum. Var þess-
um yfirlýsingum jafnvel ætlað meira gildi en stjórnlög-
unum sjálfum. Svo var til dæmis í Frakklandi, að áður
en þjóðþingið gekk frá stjórnlögunum sjálfum, samþykkti
það yfirlýsingu sína um almenn og borgaraleg mann- og