Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Síða 43
43
alls staðar sá að tryggja öryggi þegnanna og mannrétt-
indi þeirra.
IV.
Þegar þingin voru komin á laggirnar, sneru þau sér
eins og áður segir fyrst og fremst að því að draga vald
þjóðhöfðingjanna í sínar hendur. En það leiddi af hlutar-
ins eðli, að þingin gátu ekki farið sjálf með allt það vald,
sem um var að ræða, enda var og öllum ljóst, að alræði
þinganna hafði ekki síður í sér fólgnar hættur fyrir rétt-
indi þegnanna, heldur en hið fyrra stjórnarfar. Menn
minntust orða Rousseaus, er hann hafði viðhaft um Breta:
„Þeir eru frjálsir, meðan þeir eru að kjósa, en þrælar á
eftir“.
Samkvæmt kenningum fræðimanna og heimspekinga
18. aldarinnar, sem áttu sér ríkar stoðir í reynslunni,
mátti rekja ýmis mein stjórnarfarsins til þess, að stjórn-
valdið var allt á einni hendi eða að minnsta kosti fáum,
án þess að nokkur vegur væri til þess að reisa rönd við
gerræði valdhafans. Óskorað vald þinganna gat leitt til
þess, að fámennisveldi þeirra skapaði nýja forréttinda-
stétt, og var þá undir hælinn lagt, hvert öryggi þegnanna
og réttindi yrði. Ekki sízt þar sem kosningaréttur til þing-
anna var takmarkaður og mikill hluti þegnanna án áhrifa-
réttar á stjórnarfarið.
Til þess að koma í veg fyrir þetta var því tvennt talið
nauðsynlegt. Annars vegar, að stjórnvaldið væri greint
sundur og hver þáttur þess fenginn sérstökum aðila. En
hins vegar, að kosningaréttur til þinganna væri almenn-
ur og jafn.
Kenningin um greining valdsins var skýrast orðuð og
nánast því, sem síðar komst víða í framkvæmd, af franska
fræðimanninum Montesquieu. Hún var á þá leið, að stjórn-
valdinu væri skipt í þrennt: löggjafarvald, framkvæmdar-
vald og dómsvald. Skyldi valdsvið þessi vera algerlega
afmörkuð og enginn handhafi eins valdsins fara inn á
svið hinna. Kenning þessi er að vísu hvergi framkvæmd
út í æsar og getur ekki orðið framkvæmd þannig. En gildi