Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Page 56
56
embættismönnum frá er talsvert takmarkaður, nema dóm-
ur gangi gegn embættismanni.
Að því er löggjöf snertir hefir konungur frumkvæði
að lögum og takmarkaðan rétt til útgáfu laga einn. Lög-
um, er þingið samþykkir, getur hann synjað staðfesting-
ar. Hann getur rofið þingið eða aðra deild þess. Honum
ber að kalla það saman til reglulegra funda og aukafunda,
en getur sent það heim, er það hefir setið fjóra mánuði.
Til breytingar á stjórnlögunum þarf samþykki þings-
ins og síðan samþykki nýs þings, er það kemur saman í
fyrsta sinn eftir að reglulegar kosningar til neðri deildar
hafa farið fram. Loks þarf konungsstaðfestingar.
NOREGUR.
Eins og kunnugt er var Noregur í sambandi við Dan-
mörku til 1814. En er Danakonungur ætlaði þá, tilneydd-
ur, að láta Noreg af hendi við Svía, lýstu Norðmenn yfir
sjálfstæði sínu. Voru þá samþykkt Eiðsvallastjórnlögin,
sem enn gilda með allmiklum breytingum þó. Fullt sjálf-
stæði Noregs varð skammvinnt að því sinni, því að Norð-
menn neyddust til að taka Svíakonung til þjóðhöfðingja
og ganga jafnframt í allnáið samband við Svíþjóð. En
Eiðsvallalögin héldu gildi að verulegu leyti, þótt breyt-
ingar þyrfti að gera vegna sambandsins. Hvorki sambúð
þjóðanna né sambúð Norðmanna og konungs var góð og
lauk svo, að sambandinu var slitið, og konungur lagði
niður völd í Noregi 26. okt. 1905. Varð Noregur þá sér-
stakt konungsríki eins og kunnugt er.
Fyrri viðskipti Norðmanna við Danakonunga, stjórnar-
farskenningar byltinganna og hin erfiða sambúð við kon-
ungsvaldið, meðan sambúð við Svía stóð, höfðu mikil
áhrif bæði á efni stjórnlaganna norsku og framkvæmd
þeirra. Upphaflega voru þau mjög reist á kenningunni
um valdgreininguna og til þess ætlazt, að konungur hefði
sjálfstætt framkvæmdarvald, skýrt afmarkað, ekki ósvip-
að valdi Bandaríkjaforseta, en þingið löggjafarvaldið,
þannig að konungur hefði aðeins frestandi neitunarvald.